Mosfellskirkja í Mosfellsdal var vígð 4. apríl 1965 af biskupi. Hún er gerð eftir teikningu Ragnars Emilssonar að undangenginni samkeppni. Kirkjan er byggð úr steinsteypu, sperrur eru úr járni en þak klætt eiri svo og kirkjuturninn sem stendur á þrem súlum upp af austurhorni kirkjunnar.
Yfirsmiður var Sigurbjörn Ágústsson, húsasmíðameistari í Hafnarfirði, uppsetningu á sperrum og þakgrind annaðist Leifur Loftsson, Mosfellssveit. Allir fletir kirkjunnar eru þríhyrningslaga. Í kirkjunni eru sæti fyrir 96 manns. Gömul og fræg klukka er í kirkjunni, talin vera frá 15. eða 16. öld; um hana er lítið vitað. Klukkan er afar formfögur og hljómgóð.
Hægt er að sjá myndir af Mosfellskirkju á heimasíðu kirkjukot.net
Saga Lágafellskirkju hefst með konungsbréfi frá árinu 1774 þar sem skipað var að sameina Mosfells- og Gufunessóknir í eina. Þessi tilskipun var afturkölluð tveim árum síðar. Hugmyndin kom fram aftur rúmri öld síðar eða1886 þegar Magnús Stephensen, landshöfðingi, gefur út tilskipun um að sameina sóknirnar og leggja af kirkjurnar á Mosfelli og í Gufunesi en reisa nýja kirkju á Lágafelli.
Ný kirkja reis að Lágafelli og var hún vígð 24. febrúar 1889, sunnudaginn fyrstan í Góu, á konudaginn. Hún er timburkirkja á steingrunni.
Vígsluár kirkjunnar, þ.e. 1889 voru íbúar sóknarinnar 403 á 53 heimilum. 1. desember 2008 voru íbúar sóknarinnar yfir 8500.
Miklar endurbætur og viðgerðir hafa farið fram á kirkjunni í gegnum tíðina, þær mestu á árunum1955-6, en þeim lauk með endurvígslu síðara árið: Þá var kirkjan lengd um þrjá metra og kórinn — fram til þess tíma var enginn kór austur úr kirkjunni heldur stóðu altarið og ræðustóllinn á palli líkustum leiksviði uppi við austurvegginn. Heildarlengd kirkjunnar var þrjú gluggahöf. Þá var auk þess gert við hana skrúðhús norður úr kórnum. Settir voru nýir bekkir sem enn eru. Þeir hafa nú verið bólstraðir; kirkjan tekur um 150 manns í sæti. Á hundrað ára afmæli kirkjunnar var tekin í notkun viðbyggingin norðan við kirkjuna.
Hér má finna sérrit um Lágafellsskirkju sem gefið var út í tilefni 120 ára afmæli hennar. Sérritið er fáanlegt í Safnaðarheimili Lágafellsskirkju.
Hægt er að sjá myndir af Lágafellskirkju á heimasíðunni kirkjukort.net