Góðan daginn, gaman að sjá ykkur í hér Lágfellskirkju á þessum fallega degi
Þegar ég var beðin um að halda þessa ræðu, fór ég að velta því fyrir mér hvaða orð úr Biblíunni höfðu haft mest áhrif á mig. Upp í hugann kom endurminning frá fermingarfræðslu minni. Ég sat við gluggann hér í Lágafellskirkju og presturinn las upp úr Fyrra bréfi Páls postula til Korintumanna, hinu svokallaða kærleiksbréfi:
Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
Hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Það var eitthvað ógleymanlegt við þessa stund, því ég varð yfir mig heilluð af lýsingunni á kærleikanum. Bréfið náði með tungumálinu einu að vekja kærleika og ég fann eitthvað hafði breyst innra með mér eftir lesturinn. Kærleikurinn lá ekki lengur í orðunum heldur fann ég hann seytla innra með mér.
Tilefni þessarar ræðu er að í gær var dagur íslenskar tungu og einnig afmælisdagur skáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Á þessum degi vakna upp hjá mörgum spurningar um stöðu íslenskunnar. Spurningar eins og hversu lengi mun íslenskan sem er töluð af svona fáum lifa áfram? Íslenskan er menningararfur, hún hefur ekki eingöngu verið notuð af fólki í samtímanum, heldur einnig af fyrri kynslóðum. Sérhver kynslóð heldur áfram að bæta við og þróa tungumálið. Flest orðin sem við segjum eru ekki notuð í fyrsta skipti, þau voru jafnvel notuð fyrir mörgum öldum. Við bindumst fyrri kynslóðum þegar við notum gömul orð, en þróum einnig tungumálið með nýyrðum og nýjum nálgunum.
Það er vandasamt að smíða orð. Og Jónas Hallgrímsson var mikill frumkvöðull á því sviði. En það er einnig vandasamt að varðveita tungumál. Við geymum það ekki eins og gömlu handritin okkar eða eins og við geymum hluti undir gleri. Við gerum það með því að nota tungumálið, nota orðaleiki, með því að veita tungumálinu eftirtekt, með því að gefa okkur tíma til þess að lesa á íslenskri tungu, með því að vera opin á hvaða aldri sem er að læra ný orð, og með því að virkja sköpunarkraft og nýjungar sem verða til í tungumálinu. Við viljum nefnilega að tungumálið þjóni okkur eins og það þjónaði fyrri kynslóðum. Samfélag breytist og þannig þarf tungumál einnig að breytast. Ný orð verða til, gömul orð ganga í endurnýjun lífdaga og önnur orð verða úrelt.
Tungumálið hefur breyst mikið frá því þegar ég var barn. Til dæmis hefur notkunin á orðinu að elska í samfélaginu aukist mjög mikið. Börn segjast elska foreldra sína og foreldrar segjast elska börn sín. Auðvitað elskuðu foreldrar fyrri kynslóða börnin sín engu minna, eftir vill notuðu önnur orð.
Við nánari lestur á kærleiksbréfinu, sem ég hreifst svo mikið af í fermingarfræðslunni, sá ég að það fjallaði heilmikið um tungumálið. Til dæmis fyrstu vers 13. kafla:
Þótt ég talaði tungum manna og engla
en hefði ekki kærleika
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.
Þessi orð fengu mig til þess að hugsa um það að ef íslenskan væri ekki notuð til þess að tjá ást og kærleika, væri hún hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og jafnvel þótt íslenskan væri notuð til þess að yrkja fagran skáldsskap og skrifa merk vísindarit, væri hún lítilsverð ef hún væri ekki notuð til þess að tjá kærleika.
Vissulega hefur ástin verið margoft tjáð á íslensku, og auðvelt er að vísa í ljóð skáldanna. Ég hafði oft heyrt Íslendinga syngja á ensku um ástina án þess að hafa velt því fyrir mér á nokkurn hátt. Raunar ólst ég upp við að heyra lög þar sem “I love you” kom endalaust fyrir.
En ég man ennþá eftir því þegar ég var rúmlega tvítug og heyrði írska söngvaskáldið Damien Rice koma fram í Hljómskálagarðinum. Hann hefur gert garðinn fræga með því að raula um ástina á ensku með kassagítarinn að vopni. Í lok tónleikana kom hann öllum á óvart með því að syngja eitt lag á íslensku. Það var eitthvað einstakt við að heyra hann syngja þekkta íslenska vögguvísu með þykkum enskum hreim.
Sofðu unga ástin mín,
– úti regnið grætur.
Mamma geymir gullin þín,
gamla leggi og völuskrín.
Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.
Það var áhrifaríkt að heyra ljóð Jóhanns Sigurjónssonar sungið með þessum hætti. Það minnti á að íslenskan er í dag töluð af fleirum en þeim sem hafa hana að móðurmáli. Íslenskan er ekki einungis fyrir Íslendinga og Damien Rice náði vel að dreifa ást og kærleika með flutningi sínum um garðinn.
Kannski mun íslenskan einhvern tímann líða undir lok en kærleikurinn eflaust lifa lengur. En á meðan íslenskan lifir þá verðum við að muna að hún er okkar helsta verkfæri til þess að breiða út kærleikann. Og ég mun enda mína ræðu, með einni tilvitnun í viðbót úr Kærleiksbréfinu.
Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok,
og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.
Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum.
En þegar hið fullkomna kemur líður það undir lok sem er í molum.