, virstu, góði Guð, þann frið,
sem gleðin heims ei jafnast við,
í allra sálir senda,
og loks á himni lát oss fá
að lifa jólagleði þá,
sem tekur aldrei enda.
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni okkar Jesú Kristi. Amen
„Hversu yndislegir eru á fjöllum fætur fagnaðarboðans sem friðinn kunngjörir…“
Á þessum orðum hefst einn af ritningalestrum dagsins í dag – jóladags. Fyrir hugskotssjónum manns vaknar mynd af fögrum fótleggjum, sólbrúnum, stæltum og sterkum, sem bera mann eins og hann svífi létt yfir fjöll og heiðar í fögru umhverfi í hlýju landi fyrir botni Miðjarðarhafs.
Tökum íslenskar aðstæður á okkar tíma. Já – veldúðaðir fótleggir, ekki sér í bert fyrir ull og brók frá 66 gráðum norður og góðum fjallaskóm. Traustir fótleggir, hvert skref tekið af öryggi þess sem þekkir aðstæður og fer sér að engu óðslega yfir snæviþakin og hrjóstrug holt og heiðar. Hver er tilgangur þessara fótleggja? Hann er að snerta jörðina, fara stað úr stað og bera boðskap til manna.
Í myndgervingu okkar af englunum yfir Betlehemsvöllum eru fætur þeirra ekki það sem hugur okkar sér fyrir sér; vængir hljóta að halda þeim fyrirbærum guðlegrar opinberunar uppi. Englar hafa vængi – það er þeirra helsta sérkenni.
Englarnir birtust fjárhirðunum, sem horfðu furðu lostnir til himins á alla þá dýrð, himneskra herskara uppljómaða, sem blasti fyrir augum þeirra. Þeir frusu í fyrstu af ótta, en orðin sem þeir heyrðu, boðskapurinn sem englarnir færðu þeim, höfðu þó sterkari áhrif á þá: „Yður er í dag frelsari fæddur.“ Þeir fylltust óttablandinni lotningu.
Og þá er komið að okkur, þá er komið að jörðinni, þá er komið að merkingunni og tilganginum, boðskapnum. Til þess að hann berist manna á meðal þurfum við fótleggina sem fagrir fara um hæðir og fjöll. Fyrst hirðanna, sem lögðu af stað, eftir að þeir horfðu í andlit hvers annars til þess að fá staðfestingu á því að þeir væru enn til, að þeir væru enn þessa heims. Til þess þurftu þeir hvern annan, aðra manneskju, til að finna að þeir væru raunverulega til í þessum heimi.
Þeir tóku til fótanna, skunduðu til Betlehem og komu að fjárhúsinu. Já – það var satt, þarna var hann, þarna var barnið reifum vafið og liggjandi í jötu, sjálfur frelsari heimsins. Allir undruðust þegar þeir sögðu frá því sem þeim hafði verið boðað, María geymdi það í hjarta sínu. Enn aðrir, valdhafar landsins brugðust ókvæða við – óttuðust um völd sín og áhrif og sendu vígamenn af stað – það voru loðnir og ljótir fótleggir sem fóru þar, með fregn dauðans, boð um handtöku og þá skipun að drepa öll nýfædd sveinbörn.
Hljómar þetta ekki allt kunnuglega þegar litið er yfir sögu mannkyns, allt frá Betlehemsvöllum og fram á okkar dag. Könnumst við ekki öll við það hvernig við sjálf, fólk almennt og valdhafar landa taka á móti boðskap um frelsi og frið mannsins – ólík viðbrögð og ólíkar gerðir.
Það er löngu liðin tíð að okkur berist eingöngu boð mann frá manni milliliðalaust. Áður en nokkur nær að banka á dyrnar hjá okkur og bera okkur boð, um gleði eða vá, höfum við fengið SMS skeyti eða upphringinu, boð á facebook eða e-mail. Það þarf ekki lengur að reiða sig eingöngu á fagra, fagurskapaða og velbúna fótleggi fagnaðarboðans.
En fregnin, boðskapurinn um frelsi og frið í heiminum þarf samt að berast frá einum stað til annars, til að ná til viðtakanda og snerta, til að breyta heiminum.
Við lifum við það frelsi hér á landi að geta tjáð okkur án hindrana, getum komið boðum á milli manna án þess að stjórnvöld grípi inn. Við lifum í lýðræðisríki og njótum mannréttinda og tjáningarfrelsis, en þetta þrennt hangir náið saman og getur ekki þrifist án hins.
Í hinum vestræna heimi er staða okkar grundvölluð og mótuð samkvæmt gildum kristninnar um helgi mannsins og rétt hans til að eiga mannsæmandi líf. Vagga þeirra gilda hljómaði á orðum englanna forðum ,,Yður er í dag frelsari fæddur“; – „Guð þinn er sestur að völdum“ segir Jesaja.
Í tímanna rás hafa verið margir fagrir fótleggir í mynd fagnaðarboðans sem hlaupið hafa af gleði, undan hættu, til að berjast, til að standa stöðugir og fórna sér fyrir málstað friðar og frelsis í heiminum. Hvattir áfram af sömu gleði vonarinnar og þeirri fullvissu að tjáningarfrelsi sé grundvöllur mannréttinda, grundvöllur mennskunnar og móðir sannleikans. Og hvattir áfram af þeirri vissu að það er ekkert veraldlegt vald sem getur stöðvað framgang mannsins í leit að frelsi.
Og þeir hafa hlotið og hljóta árangur fyrir erfiði sitt og fórn, eins og heimurinn sannar með auknu lýðræði og kröfu um frelsi og mannréttindi manna sem skráðar eru í alþjóðasamningum, mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem stórveldi og ríki heims hafa skrifað undir.
En það er ekki nóg, það þarf að fylgja hugur og breytni með í verki, að hvert ríki og þjóð búi þannig í haginn fyrir þegna sína að svo sé. Lýðveldið hér á Íslandi og tjáningarfrelsi hefur að mati margra átt erfitt uppdráttar, m.a. vegna smæðar þjóðarinnar, sem ætti að vera styrkur, en þar hafa skekkt myndina m.a. kunningjasamfélag og flokkræði sem fjötruðu kraftinn með hjálp peninga- og markaðsafla og við upplifuðum þöggun og ófrelsi og jafnvel einræðistakta og yfirgang gagnvart þegnum landsins af stjórnvöldum.
Látum það vera okkur hvatningu og styrkja von okkar um framtíð þjóðar og heimsins það hugrekki sem við upplifum í núverandi nýkrýndum verðlaunahafa hinna heimsvirtu friðarverðlauna Nóbels nú á árinu 2010, kínverjanum Liu Xiaobo, eiginkonu hans og félaga – já og allra þeirra sem á undan eru gengnir og hafa breytt heiminum til hins betra og hætt lífi sínu fyrir vikið.
Hann fékk verðlaunin vegna framúrskarandi starfs í þágu mannréttinda. Hann gat þó ekki komið til Osló og tekið á móti þeim. Í Kína er hann fangelsaður og fjötraður og eiginkona hans var sett í stofufangelsi, þegar nefndin tilkynnti friðarverðlaunin.
Líu Xiaobo afplánar nú 11 ára fangelsi í kjölfar óréttlátra réttarhalda fyrir ,,að hvetja til undirróðurs gegn ríkisvaldinu“ eins og segir í opinberri tilkynningu ríkisins. Lio hefur staðið framalega í flokki þeirra er gagnrýnt hafa kínversk stjórnvöld og kallað eftir mannréttindavernd og lýðræðisumbótunum í Kína.
Sjálfur segist hann setja sjálfum sér þær kröfur að lifa lífi sem einkennist af heiðarleika, ábyrgð og virðingu. Og þrátt fyrir að vera rændur öllu, samvistum við eiginkonu sína, frelsi til tjáningar, starfi sem kennari, rétti til að skrifa og að taka þátt í umræðum, þá gat hann sagt í réttinum: „Ég á mér enga óvini eða hatursmenn.“
Glæpur hans var að andmæla ríkjandi flokksvaldi í einu stærsta efnahagsveldi heimsins í dag.
Það er gleðilegt þegar alþjóðasamfélagið og einn af fulltrúum þess, stjórn Nóbelsverðlaunanna sýnir slíkt hugrekki eða eins og Líu sagði sjálfur þegar eiginkona hans færið honum fréttina ,,Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að þeir þyrðu að veita verðlaunin glæpamanni í fangelsi eins og mér.“
Fjárhirðarnir á Betlehems völlum trúðu vart sínum eigin augum, eyrum – já, öllum sínum skynfærum, að þeir af öllum skyldu valdir af Guði, þessir aumu, fátæku þræla, sem eygðu enga von til þess að líf þeirra gæti breyst, hvað þá að til væri það afl í heiminum sem tjáði þeim að þeir væru einhvers virði, að Guð elskaði þá. Það er sannarlega boðskapurinn sem okkur er fluttur á jólum og sem við öll þörfnumst og þráum að heyra, aftur og aftur. Kærleikurinn er fæddur í heiminn, boðar nýtt líf, ný tækifæri fyrir þig og mig, fyrir heiminn að losna úr viðjum ófrelsis, græðgi, spillingar og valdahroka.
Hann er krafturinn í viðleitni mannsins til að gera heiminn betri, með því að gera lýðræðið sannarlega virkt og flytja málfrelsi og mannréttindi til handa öllum jarðarbúum. Sá kraftur er fæddur í hjarta hvers mann á þessari jólanótt. Fögnum og verum glöð í Guði frelsara okkar, hvern dag, hvert andartak og stígum fótum okkar til jarðar, göngum veg vonar og bjartsýni og sannleika og hvetjum og hjálpum hvert öðru að reisa við hinn bogna reyr mannsins. Gerum hvern dag í lífi okkar að sönnum jóladegi.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda.
Gleðileg Jól!
Takið postullegri blessun:
Náðin Drottin vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen