Project Description
Náð sé með ykkur og friður frá Guði okkar og Drottni Jesú Kristi. Amen
Fegurð, fegurð…..
Hvílík fegurð!
Um hádegisbil birtist mér myndin
hægt, hljótt
stígur hún fram úr rökkrinu.
Allt er hvítt, þakið snjó
ósnertanlegt, heilt, hreint.
Eins og undrið sanna
kallar á mig og fyllir.
Mig setur hljóða.
Hvílík fegurð!
Það er eins og það séu jól
Það eru jól! Heilög jól!
Já, það eru jól! ̶ Jólin eru komin. Þau kvikna í hjörtum okkar þegar við heyrum upphafsorð Guðspjallamannsins lesin í kirkjunni klukkan einhverjar mínútur yfir sex á þessu kvöldi.
Nú gerist eitthvað innra með okkur. Kunnugleg tilfinning vaknar og flæðir um allan líkamann og fyllir – djúp tilfinning um fegurð þess sem þrá okkar leitar að alla daga.
Þú þekkir hana, ég þekki hana og vildi helst hvíla í henni alltaf; vildi að allur heimurinn fengi að upplifa þessa tilfinningu og dvelja í henni, vera gagntekinn og stjórnað af henni í vöku sem svefni, jafnt í öllum hversdagsleikanum og á hátíðsdögum. Þú nefnir hana þínu nafni og átt þína táknrænu mynd eða myndir sem tengjast þínum reynsluheimi og þú finnur þinn farveg til að tjá hana eins við öll hin.
Frásögn guðpjallamannsins í dag fjallar um venjulegt fólk, ungt par, sem er á ferðalagi á milli staða, konan er þunguð og komin að því að fæða. Þau eiga erfitt með að finna gistingu og hýrast í fjárhúsi yfir nóttina. Þar verður hún léttari og fæðir barn, sveinbarn og hún vefur það reyfum og leggur í jötu. Við heyrum einnig um fjárhirða sem sinna vinnu sinni, að vaka yfir fénu að næturlagi.
Lífið í þessari frásögn um fæðingu frelsara heimsins er sem sagt ósköp venjulegt miðað við aðstæður þessa tíma.
Ekki svo ósvipað lífi margra á okkar dögum. Börn fæðast jafnvel undir kringumstæðum álíka þeim og voru í lífi Maríu og Jósefs.
Menn sinna sínum margvíslegu störfum daga sem nætur, líkt og fjárhirðarnir forðum.
Í þeirri mynd sem jólaguðspjallið bregður upp í upphafi frásagnarinnar er fátt sem vekur tilfinningu heilagleika eða friðar innra með okkur.
Kýreníus sem þá var landsstjóri í Sýrlandi er einnig nefndur til sögunnar. Ég staldra við þessa tilgreindu staðsetningu í jólaguðspjallinu; þetta land sem getið er þarna í framhjáhlaupi í hinni fornu frásögn sem boðar komu frelsarans í heiminn. Mér verður órótt. Mér er allt í einu kippt inn í mitt hversdagslega gráa líf, sem er yfirfullt af fregnum fjölmiðla og annarra miðla af ófriðnum, hryllingnum og miskunnarleysinu í Sýrlandi á okkar dögum. Fréttum af fólki sem flúið hefur frá heimilum sínum undan grimmilegum átökum og ofbeldi, af börnum sem fæðast á leiðinni, jafnvel undir berum himni í eyðimörkinni eða í neyðarskýlum flóttamannabúðanna, þar sem lífslíkur þeirra eru tvísýnar; fréttum af fjölskyldum hröktum og heimilislausum sem eiga sér litla von.
Á því augnabliki verður þeirra þrá mín þrá og bæn og hún er næstum óbærileg. Þráin eftir friði, þráin eftir skjóli og öryggi fyrir börnin, fyrir allt fólk. Þráin eftir æðra afli sem grípi inn í veröldina og breyti atburðarrás stríðandi afla, sem leiðir menn til friðar.
Lítill drengur sagði upp úr eins manns hljóði við mömmu sína eitt síðdegið nýlega um leið og hann horfði upp í stjörnubjartan kvöldhimininn: „Mamma, það er eins og að himininn og stjörnurnar séu nær okkur af því að það eru að koma jól“. Snáðinn er aðeins sjö ára og nú þegar mikill guðfræðingur, eins og öll börn reyndar eru. Spurningar þeirra og bollaleggingar fella gjarnan lærðan guðfræðinginn af sínum háa stalli og gera hann auðmjúkan.
Af himnum ofan barst heiminum boðskapur jólanna. Allt sem áður var hversdagslegt, fullt af ótta, einangrun, þjáningu og umkomuleysi varð í einni anddrá uppljómað og gjörbreytt. Þar sem engin átti von, þar sem lífið var í allri sinni eymd og átti ekkert skjól, þar opinberaði Guð sig í heiminum, þar birtist engilinn mönnunum og vísaði þeim veginn að jötunni í Betlehem. „Yður er í dag frelsari fæddur..“
Himinninn kom niður á jörðina á jólanótt. Himinn og jörð urðu eitt, Guð gerðist maður í nýfæddu, saklausu barni. Himinninn og stjörnurnar eru nær okkur á jólunum – já, þannig er það. Þetta er dimmasti tími ársins. Við horfum meira til himins en á öðrum árstímum. Við sjáum stjörnurnar skýrar og spáum í þær, eins og vitringarnir forðum. Og við fylgjumst með norðurljósunum sem dansa á himinhvelfingunni og fylla okkur undrun. Við horfum til himins í þrá eftir birtunni þegar dagur er stystur. Við horfum til himins og finnum hvíld í myrkrinu, því þar eru stjörnurnar eins og góðir vinir sem vekja von.
Í myrkri sálar og aðstæðna þar sem þjáning, einangrun og ófriður ríkir, þar er smástirnin að finna sem lýsa upp og vísa okkur veginn eins og vitringunum forðum að jötu friðarhöfðingjans. Inn í dýpsta myrkur boðar engill Guðs boðskap himinsins, boðskap jólanna að Guð er þar.
Já, jafnvel þar sem þú upplifir erfiðar og yfirþyrmandi aðstæður og ástand og hugsar með þér að það sé fjarstæða að Guð geti verið þar!
Já – fjarstæða –
„Yður er í dag frelsari fæddur…“ þar við situr jafnvel þótt við skiljum það hvorki né trúum. Því getur enginn breytt. Afli kærleikans, afli friðar og fegurðar fær enginn mannlegur máttur vísað úr heiminum – þar fáum við engu um ráðið. Þar stendur Guð við sitt.
Því fögnum við og þess vegna höldum við gleðileg jól í heimi hér.
„Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum.“
Megi Friður Guðs fylla hjörtu allra manna á þessum jólum og megi friðarboðskapur jólanna vitja þeirra sem í myrkri lifa og frelsa þau.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda. Amen
Takið postullegri blessun:
Náðin Drottins okkar Jesí Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með ykkur öllum. Amen