Er íslensk tunga í kreppu – Erindi Guðna Kolbeinssonar frá 16. nóvember 2008
Predikanir – Predikanir
Hér á eftir fer erindi Guðna Kolbeinssonar sem flutt var í Lágafellskirkju á degi íslenskrar tungu, 16. nóv. 2008
Góðir tilheyrendur
Við erum hér saman komin á degi íslenskrar tungu, afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar, náttúrufræðings og skálds. Ég býst við því að hún Ragnheiður hafi fengið mig hingað í dag til að ræða um íslenska tungu, því að ég er það sem kallað er íslenskufræðingur, sem þýðir að ég hef lært íslensku í háskóla. Það þýðir hins vegar ekki að ég sé neitt betri íslenskumaður eða tali betra og fegurra mál en hver annar. Að minni hyggju leggjum við grunninn að málkennd barna okkar áður en þau byrja í skóla. Ef við lesum fyrir þau, tölum við þau og reynum að stuðla að því að þau lesi bækur strax og þau eru orðin læs (en höldum samt áfram að lesa fyrir þau meðan þau leyfa okkur það) koma þau sér upp góðum orðaforða sem þau geta síðan byggt á. Og góður orðaforði er grundvöllur þess að vera vel máli farinn; auðvitað má bæta hann og auka við hann með árunum; það gera flestir – en lengi býr að fyrstu gerð og lykilinn að auðugu og blæbrigðaríku máli er fyrst og fremst að finna í bókmenntum og spjalli fullorðinna við börnin. Og ömmur og afar eiga að finna lausa stund til að tala við barnabörnin og fara jafnvel með þau í heimsókn á Hrafnistu til að heyra langafa segja frá því hvernig var í gamla daga. (Það er engan veginn víst að barninu unga leiðist jafnmikið og fullorðnu barni gamla mannsins sem hefur heyrt sögurnar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.)
Það hefur varla farið framhjá neinum hér að nú eru erfiðir tímar, það er kreppa. Hvað íslenska tungu varðar þá held ég að hún hafi verið talin í kreppu alveg frá því að menn fóru yfirleitt að velta stöðu hennar fyrir sér. Þeir sem hafa í aldanna rás tekið sér það hlutverk að gerast gæslumenn tungunnar hafa flestir hverjir klifað á því í tíma og ótíma hvað íslenskunni fari mikið aftur, unglingar tali skelfilegt mál, uppfullt af slettum og latmælgi, og þeir fullorðnu séu lítið skárri. Þennan söng hef ég heyrt alla mína ævi og ég er fæddur á fyrri helmingi aldarinnar sem leið. Hins vegar leyfi ég mér að halda því fram að þessar eilífu árásir á börn og ekki síst unglinga séu að miklu leyti tilhæfulausar. Börn og unglingar eru misvel máli farin en þannig hefur það alltaf verið. Og hugsið ykkur bara hverjar kröfurnar eru sem við setjum börnum okkar og barnabörnum: Þau þurfa að kunna tungutak tölvuheimsins, dægurtónlistar, skemmtana- og félagslífsins. Ég er ekki alveg viss um að við fullorðna fólkið séum ákaflega vel að okkur í sérhæfðu unglingamáli. En við skömmumst okkar ekkert fyrir það; enginn ætlast til að við þekkjum tungutak unga fólksins. Ungmennin eru líka dauðfegin að fá að vera í friði fyrir okkur einhvers staðar. En við heimtum að unga fólkið þekki og skilji öll gömlu orðtökin sem eiga uppruna sinn í torfbæjartískunni og sjósókn á árabátum. Og þegar eitthvað fer úrskeiðis, eins og hjá ungum íþróttafréttamanni sem sagði fyrir nokkru að heimaliðið hefði haft taglið og höldin í fyrri hálfleik, þá hneykslumst við gríðarlega á fáfræði mannsins og hæðum hann fyrir. Unga fólkið á að þekkja öll blæbrigði íslensku frá 13. öld og fram á þá 21. Ég kemst hins vegar upp með að kannast við það helsta fram undir 1990. Það sem gerðist eftir það er svo óttalega ómerkilegt og bundið við ungdóminn að ég þarf ekkert af því að vita. – Verum sanngjörn við unga fólkið.
Því er oft haldið fram að helsta hætta sem að tungunni steðjar séu erlend áhrif. Nú um stundir eru vondu erlendu áhrifin ensk; þegar ég var að alast upp voru þau dönsk. En hvenær ætli erlendra áhrifa hafi fyrst gætt að marki í tungumáli okkar? Það er hollt að rifja það upp hér á þessum stað. Það var þegar kristni kom í land, fyrir rúmum þúsund árum. Þá fylltist allt af tökuorðum um hinn nýja sið, orðum eins og kirkja, altari, messa, prestur, biskup, páfi, munkur, klaustur o.s.frv. Á þeim tíma var ekki til neitt sem hét Íslensk málnefnd og engar orðanefndir starfsstétta ýmissa, eins og nú tíðkast. Tökuorðin flæddu því óhindrað inn í málið og öðluðust þegar í stað þegnrétt og ég minnist þess ekki að hafa lesið neitt um það að ástæða væri til að amast við þeim.
En áfram um málfar kirkjunnar manna. Þegar ritöld hófst á Íslandi voru það vitaskuld einkum klerklærðir menn sem skrifuðu og meðal annars þýddu þeir og endursögðu prédikanasöfn úr latínu, svonefndar hómilíur. Stíllinn á þessum hómilíubókum er yfirleitt einfaldur og kjarnmikill og með þeim var lagður grunnur að kirkjumáli á traustri og góðri íslensku.
Eins og við vitum tóku Íslendingar upp konungssamband við Norðmenn á þrettándu öld; en lentu eftir ýmsar pólitískar hrókeringar undir stjórn Dana. Jafnframt fóru íslenskir lærdómsmenn að stunda háskólanám sitt á dönsku, kaupmenn og ýmsir valdsmenn voru danskir og yfirstéttin talaði dönsku. Dönsk áhrif á tunguna urðu gríðarmikil. – En enn um málfar kirkjunnar. Við siðaskiptin um miðja 16. öld var kaþólskur siður aflagður og upp tekin lúterstrú. Þeirri breytingu fylgdi að messur fóru fram á móðurmálinu eingöngu og íslenskir sálmar tóku við af latneskum kirkjusöng. Og þá þurfti að hafa hraðar hendur að yrkja svo að hinn nýi siður yrði studdur fögrum söng. Fyrstu sálmaskáld hérlendis í lúterskum sið höfðu danska sálma að fyrirmynd og sú fyrirmynd var heldur klén og raunar hið versta hnoð. Og íslenska eftiröpunin var ekki miklu skárri. Lítum á tvö dæmi:
Glaðlega viljum vér allelúja syngja
með kærlegheitsins begering,
vort hop og hjarta til guðs skal lyftast,
með sinni helgri náð og miskunn
sem hefir leyst oss af allri synd,
til saligheits og alls kyns treyst
er hann oss öllum upprunninn.
Og svo þetta:
Að klaga mig í mitt sinni
má eg með konung Davíð,
eg kann það og svo finna
minn guð hann var mig reið.
Eg það vel veit,
það gjörði mína synd óhreina,
og hann er sá alleina,
eg styggði á marga leið.
Ef ekki hefðu komið til tveir öflugir málsvarar íslenskrar tungu innan kirkjunnar er hætt við að íslenskt kirkjumál hefði orðið mjög dönskuskotið og hugsanlega hefði farið fyrir okkur eins og Norðmönnum sem nú tala danska mállýsku, ekki síst vegna þess að hjá þeim varð kirkjumál allt á dönsku eftir að lúterssiður var upp tekinn þar í landi. – Þessir tveir menn, sem unnendur íslensks máls eiga svo mikið að þakka, voru Oddur Gottskálksson, sem þýddi Nýja testamentið af mikilli snilld, og Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup sem gaf út Sálmabók 1589 og Vísnabók 1612. Hann lagði áherslu á það við skáld sín og þýðendur að vanda vel til verka og sagði meðal annars í formála Sálmabókarinnar: „… mjög er það misráðið og ólaglegt að vanda veraldlegar vísur og önnur ónytsamleg kvæði með mestri orðsnilld og mælsku sem maður kann best, en hirða ekki að vanda það sem Guði og hans lofgjörð tilkemur.“
Guðbrandur biskup og náinn samverkamaður hans, Arngrímur lærði, eru upphafsmenn hreintungustefnu á Íslandi. Guðbrandur sagði að íslenskt mál væri í sjálfu sér „ljóst og fagurt og ekki þyrfti í þessu efni né úr öðrum tungumálum orð til láns að taka eða brákað mál né bögur að þiggja.“
Eftir daga þeirra Guðbrands og Arngríms hafa ævinlega verið uppi menn sem vilja veg íslenskunnar sem mestan og bestan og vilja hreinsa hana af öllum erlendum óhroða. Hins vegar er einnig uppi sú skoðun að tungumál séu lifandi fyrirbæri og því breytingum undirorpin og jafnvel að hreintungustefna sé beinlínis skaðleg, haldi aftur af mörgum sem þori ekki að tjá sig af ótta við að brjóta einhverjar reglur settar af málfarslöggunni. Til dæmis finnst mörgum óþarft að íslenska ýmis fræðiheiti og tækniorð því að þá þurfa flestir sem þau nota að hafa tvöfaldan orðaforða, kunna bæði að seifa fælinn og vista skjalið, svo að dæmi sé tekið. Og þessi skoðun er engan veginn ný af nálinni, Sveinn Sölvason hét lögmaður einn á 18. öldinni. Hann skrifaði í formála að riti sem kom út á hans dögum:
Það mun engum miður þykja að ég hef allvíða innfært terminos juridicos eður latínsk atriðisorð sem júristarnir brúka yfir eitt og annað – þó ei önnur en efninu til hlýða, ei heldur fleiri definitiones en í lögunum eru útþrykkilega tilgreindar eður í efninu virkilega undirfaldar – og er það sérdeilis gert fyrir studerande unga menn, hverjum ekki alleina er prýði að vita slíka terminos heldur og mikil hjálp að lesa aðrar juridískar bækur, fororðningar og document, hvar svoddan glósur oft innhlaupa. Ei heldur þurfa ólærðir lesendur að meina sem í þeim sé nokkuð hulið því annaðhvort eru þær með einu algengu og skiljanlegu nafni útlagðar eða með fleirum orðum útlistaðar.
Með rómantísku stefnunni og sjálfstæðisbaráttunni óx hreintungustefnu mjög fiskur um hrygg og unnið var markvisst að því að útrýma dönskum áhrifum í málinu. Og fyrirmynda skyldi leitað, ekki í íslensku eins og hún var um 1500, heldur eins og hún var rituð í fornsögunum; 13. aldar máli. Einn ötulasti baráttumaðurinn var einmitt afmælisbarn dagsins í dag, Jónas Hallgrímsson, skáld, þýðandi og fræðimaður, sannur orðsnillingur sem tókst að segja flókna hluti á einfaldan hátt; ljóð hans og lausmálstextar líða áreynslulaust áfram, málfarið er fagurt en laust við alla tilgerð. Það er því einstaklega vel til fundið að hugleiða stöðu tungumáls okkar á afmæli hans.
Þennan pistil minn nefndi ég: Er íslensk tunga í kreppu? Það er því við hæfi í lokin að reyna að svara því. Í rauðu skýrslunni sem Sameinuðu þjóðirnar sendu frá sér um síðustu aldamót er því spáð að um 90% af tungumálum heims verði útdauð í lok 21. aldarinnar. Tungumál fámennra þjóða eru vitaskuld í mestri hættu. Og ég tel að hættan stafi ekki fyrst og fremst af latmælgi unglinganna og lélegum orðaforða þeirra, sem sífellt er klifað á af lítilli sanngirni. Heldur eru það framfarirnar og alþjóðavæðingin sem eru háskalegastar tungunni. Ef sú stefna verður ofan á að í íslenskum stórfyrirtækjum framtíðarinnar verði töluð enska er eins gott að byrja strax að byggja lítil þorp í byggðum landsins þar sem ferðamenn geta hlustað á skrítna gamlingja tala óskiljanlegt tungumál sem hét víst íslenska meðan það var til. Enginn talar til lengdar ensku í vinnunni og íslensku heima hjá sér og verði þessi hugsjón margra alþjóðasinna að veruleika lendir íslensk tunga vissulega í kreppu.
Þökk fyrir.