Við skulum biðja:

Góði Guð,

Opna augu okkar fyrir sannleika þínum,

Opna augu okkar fyrir vilja þínum.

Opna hjörtu okkar fyrir kærleika þínum,

Opna hjörtu okkar fyrir gleði þinni

Opna hendur okkar til verka þinna,

Opna hendur okkar hvert fyrir öðru.

Amen

(Margareta Malin)

 

Náð sé með ykkur og friður frá Guði og Jesú Kristi, amen.

Raddir vorsins eru rétt að byrja að hljóma í kringum okkur. Sólin hækkar á lofti og boðar nýja tíma. En þessi umbreyting frá vetri til sumars gengur ekki átakalaust fyrir sig. Vetur konungur er ekki tilbúinn til að gefa eftir og hefur gert hverja innreiðina á fætur annarri síðastliðnar vikur. Fölhvít jörð í morgunsárið, lauflétt og dansandi snjókorn í hádeginu,  haglél seinnipartinn.

En þrátt fyrir tilraunir vetrarinsheldur veiklulegt vorið áfram að minna á sig og sólin keppist við að bræða burt veldi konungsins. Það er tekist á í náttúrunni, árstíðirnar glíma og það má varla milli sjá hvor hefur betur. Við, áhorfendurnir,  þurfum aðeins að vera þolinmóð og bíða, því við vitum innst inni hvernig þessi barátta endar, hvor árstíðin mun sigra.

Þessi glíma árstíðanna er táknræn fyrir þann tíma sem nú gengur yfir. Hún er táknræn því hún endurspeglar sögu páskanna. Sögu átaka, glímu milli illsku og kærleika, væntinga og vonbrigða, réttlætis og óréttlætis. Hún endurspegla sögu þar sem vart mátti á milli sjá hvort aflið hafði betur, illska eða kærleikur.

Fyrir konunum sem í morgunsárið fara til grafarinnar að vitja um Jesú hefur vikan verið vika átaka og öfga. Þær upplifðu gleði mannfjöldans sem fylgdi, trúði og treysti á Jesú. Þær sáu fólkið fagna þegar hann reið inn í Jerúsalem.  En þær fylgdust líka með lævísum  æðstuprestunum, sáu óttaslegið yfirvaldið og svikula vini. Fyrir þeim náði óréttlæti og valdníðsla heimsins hámarki með krossfestingunni. Heimur þeirra hrundi.

Í fyrstu morgunskímunni eigja þær hvorki von né eftirvæntingu, aðeins vonbrigði. Þær syrgja hann sem færði þeim von og kærleika, nýjan skilning bæði á Guði og manneskjum.  Við skynjum sorg þeirra á göngunni til grafarinnar, hún gerir þær örvinglaðar, fastar með eigin hugsunum og einmanna. Þær eru sannfærðar um að baráttan sé á enda.

En við gröfina gerist eitthvað, eitthvað sem breytir öllu. Þær sjá hið ótrúlega, heyra í fyrsta skipti boðskapinn sem breytir heiminum. Boðskapinn um að kærleikurinn hafi sigrað dauðann.

Og við horfum á eftir þeim hlaupa af stað með þessar stórkostlegu fréttir, með sjálft fagnaðarerindið, óttaslegnar en samt svo fullar af gleði. Þessar merkilegu konur verða boðberar nýrra tíma þennan fyrsta páskadagsmorgun.

Við sem í dag vermum kirkjubekkina höfum heyrt þessa sögu áður, væntanlega svo oft áður.  Við höfum líka mætt boðberunum trúarinnar, arftökum kvennanna sem forðum hlupu af stað. Við skynjum söguna og skiljum í samhengi páska og dauða. En hefur hún dýpri merkingu?  Hvaða áhrif hefur hún á daglegt lífi okkar? Breytir hún einhverju?

Nýlega sá ég stutt myndband á veraldarvefnum. Eldri maður sat við gangstréttarbrún og var að bettla.  Við hlið hans var pappaspjald sem á stóð, ,,hjálp,  ég er blindur“. Margir gengu framhjá honum en fáir virtust gefa manninum peninga. Þá gekk þar að kona og stillti sér upp beint fyrir framan manninn. Blindi maðurinn  þukklaði skóna hennar og velti því trúlega fyrir sér af hverju hún stoppaði svona lengi. Á endanum tók Konan pappaspjaldið, snéri því við og skrifað á það, setti það aftur á sinn stað og gekk í burtu. Eftir þetta virtust fleiri og fleiri henda peningum á gangstéttina í kringum blinda manninn, svo miklum að hann hafði varla undan að tína þá saman. Og hann virtist sæll og glaður. Þá kemur konan aftur og stillir sér fyrir framan manninn. Hann þukklar skóna hennar og þekkir hana þannig aftur. Hann spyr hana hvað hún hafi skrifað á pappaspjaldið. Hún svarar honum og segir ,, bara það sama og stóð á áður“. Þegar hún labbar í burtu sést að á spjaldinu stendur; ,,Þetta er yndislegur dagur og ég get ekki séð hann“

Það er einhvern veginn þetta sem upprisan snýst um – Hún snýst ekki fyrst og fremst um einn einstakan atburð á páskadagsmorgni,   heldur viðhorf  til heimsins, upprisu sem verður til í okkar lífi, frá degi til dags.  Upprisu sem fær okkur til að horfa fram á veginn á jákvæðan hátt í stað þess að líta til baka og harma. Já, Upprisan leiðir okkur til að horfa á heiminn útfrá kærleika og vissu um hvaða afl muni að lokum sigra. Hún leiðir okkur til vonar sem krefur okkur um þolinmæði,  til vonar í trú.

En þessi von er hvorki jafn áþreifanlega og snjórinn sem fellur um vetur né eins sterk og sólinn sem skín á vorin því rétt eins og Páll postuli sagði, Von , sem sést, er ekki von, því hver vonar það sem hann sér.

Til er trúarjátning sem ber yfirskriftina ,,Trúarjátning vonar“ eftir argentínskan prest að nafni Obermann  í þýðingu sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar. Hún lýsir persónulegri trú þess sem finnur Guð ganga sér við hlið, Guð sem skilur vandamál hversdagsins, og þekkir mannlegar tilfinningar.  Hún lýsir guðsmynd sem er nærandi og  umvefjandi. En hún lýsir líka raunsæjum heimi og því hvernig hægt er að horfa á heiminn út frá von upprisunnar.  Síðari hluti játningarinnar hljómar svona:

Ég trúi á Guð sem horfir með athygli á heiminn,
sér hatrið sem breiðist út,
og aðskilur,
hrekur til hliðar,
særir og deyðir:
sér kúlurnar sem smjúga gegn um húð og hold
sér saklaust blóð sem úthellt er yfir jörðina,
sér höndina sem grípur ofan í ókunna vasa,
og rænir því sem aðrir þurfa til matar,
sér dómarann sem dæmir þeim í hag sem borga best
og setur hræsnina á æðra sess en sannleika og réttlæti

Guð sem sér menguðu fljótin og dauðu fiskana,
sér eiturefnin sem eyðileggja jörðina og setja göt á himininn,

Guð sem sér hvernig framtíðin er fjötruð í veðböndum
og skuld mannanna vex.

Ég trúi á Guð sem sér þetta allt,
og heldur áfram að gráta.

En ég trúi líka á Guð
sem sér móðurina sem fæðir,
sér hvernig lífið fæðist með þraut,
sér tvö börn að leik,
sér útsæði samstöðunnar vaxa,
sér runna blómstra í rústunum,
sér nýtt upphaf,

sér þrjár ruglaðar konur sem hrópa um réttlæti
og eiga sér óskadraum sem aldrei deyr

sér sólina koma upp hvern morgunn
því að núna er tími tækifæranna.

Ég trúi á Guð sem sér þetta allt
og brosir breitt
því að þátt fyrir allt

er von. ( Tilvitnun lýkur )

Já þrátt fyrir allt, þrátt fyrir allt er ALLTAF von. Það er fagnaðarboðskapur páskadagsmorguns. Þrátt fyrir svo ótal margt sem hrjáir heiminn og fólkið sem byggir hann er von. Og til þeirrar vonar getum við horft. Það er boðskapur upprisunnar, grundvöllur kristninnar.

Gefðu okkur Góði Guð , að  við getum á þessum páskadagsmorgni, verið jafn viss um upprisu vonina og komu sumarsins. Gefðu okkur hugrekki og kraft til að taka við fagnaðarerindinu úr höndum kvennanna forðum og færa það öðrum í trú, von og kærleika.

Þessi morgun er morgunn fullvissunnar, morgun ómældrar gleði. Við vitum hvaða árstíð mun að lokum hafa betur. Við vitum líka hvaða afl mun að lokum sigra heiminn því kærleikur Guðs hefur sigrað dauðann. Kæri söfnuður , Gleðilega páska.