Hér getur að líta dagskrá ársins 2015 í Mosfellskirkju sem var 50 ára afmæli kirkjunnar:
Í ár er 50 ára vígsluafmæli hinnar endurreistu Mosfellskirkju þ. 4.apríl. Því verður fagnað með hátíðarguðsþjónustu í kirkjunni á páskadag þ. 5. apríl kl. 14.
Í tilefni þessarra tímamóta hefur verið ákveðið halda upp á afmælið í heilt ár m.a. með því að tengja það við önnur tímamót í sögu sóknarbarna, að 60 ár eru liðin frá afhendingu Nóbelsverðlauna til Halldórs Laxness og 100 ár liðin síðan konur fengu kosnigarrétt, en þar kemur Ólafía Jóhannsdóttir, fædd á Mosfelli, m.a. við sögu.
Nú þegar er afmælisárið hafið með endurbótum á kirkju og umhverfi. Ný girðing kringum kirkjuna hefur verið sett upp, kirkjan máluð að innan og ný gólfteppi lögð í forstofu. Hafinn er undirbúningur að malbikun á bílaplani og útskipting á bekkjum og stólar settir í stað er í athugun. Bæklingur með fróðleik um kirkjubygginguna og sögu er í vinnslu og mun verða dreift í öll hús í prestakallinu. Kirkju– og menningartengd dagsskrá er í vinnslu og lítur brátt dagsins ljós. En eftirfarandi dagsskrá verður í Mosfellskirkju fram að afmælinu sjálfu:
Flestir hafa vonandi lesið bók Halldórs Laxness, „ Innansveitakróniku“ eða ,,fáein blöð um týnda smámuni í Mosfellssveit“ eins og hann kallar hana líka.
Við bjóðum til samverustunda um bókina þrjá mánudaga í febrúar kl.17 í Mosfellskirkju. Við veljum að kalla það leshóp á léttum nótum . Allt áhugafólk um bókina er velkomið.
Þann 9. febrúar kl. 17-18:30 flytur Bjarki Bjarnason erindi og ræðir um bókina.
Þann 16. febrúar kl.17-18:30 – spjallað og rýnt í bókina.
Þann 23. febrúar kemur Jón Kalman, skáld og segir frá og spjallar um bókina.
Sr.Ragnheiður Jónsdóttir hefur umsjón. Allir hjartanlega velkomnir!
Langar þig að fræðast um kirkjubygginguna sjálfa, hönnun hennar og sögu?
Sunnudaginn 15. mars að lokinni guðsþjónustunni í Mosfellskirkju sem hefst kl.11 flytur Pétur H. Ármannsson, arkitekt og forstöðumaður minjaverndar, erindi um það efni í kirkjunni.
Meðal þess sem rágert er á seinni hluta afmælisársins er: hin árlega hestamannamessa í maí og kyrrðardagar á Mosfelli að vori og hausti.
„Baðstofustemmning – Stefán Þorláksson heiðraður“ samkoma í Reykjadal, verður á bæjarhátíðinni í lok ágúst,
Fjölskylduguðsþjónusta í september og í lok október verður kvennakirkjan með guðsþjónustu í tilefni að öld er liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Ólafía Jóhannesdóttir, fædd á Mosfelli 1863, kemur þar m.a. við sögu sem baráttukona þess málefnis. Að guðsþjónustu lokinni flytur Guðrún Ásmundsdóttir, leikona, leikþátt um þá merku konu.