Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni, Jesú Kristi!
Textar dagsins í dag eru vissulega alvarlegir og sýna okkur hversu auðveldlega við látum afvegaleiðast í okkar veraldlegu sýslan og að ekki er sama hvern við tökum okkur til fyrirmyndar. Textarnir eiga það líka sameiginlegt að vísa beint inn í aðstæður okkar Íslendinga nú, á þessum síðustu og verstu!, eins og sagt er.
Í lexíu dagsins heyrðum við lesið úr 1. Mósebók um hinar fornu borgir Sódómu og Gómorru sem tortímdust vegna óguðlegs lífernis íbúanna. „Neyðarópin frá Sódómu og Gómorru eru mikil og synd þeirra mjög þung, sagði Drottinn.“
Og í pistlinum heyrðum við lesið úr bréfi Páls postula til safnaðarins í rómversku setuliðsborginni Filippí í Grikklandi. Í þeirri borg, segir Páll í bréfi sínu, eru margir sem breyta eins og óvinir krossins og afdrif þeirra er glötun. Maginn er guð þeirra og þeir hafa hugann á jarðneskum munum. Eitthvað er þetta nú kunnuglegt.
Svo er í guðspjalli dagsins frásögnin alþekkta um að gjalda keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er. Þar heyrum við um hvernig Farísear og Heródesarsinnar, sem annars voru venjulega óvinir, sameinuðust um að leggja gildru fyrir Jesú. Ef hann svaraði spurningu þeirra um hvort leyfilegt væri að gjalda keisaranum skatt, neitandi, væri þar með hægt að kæra hann fyrir hinum rómversku yfirvöldum sem réðu landinu, en svaraði hann játandi, yrði hann þar með orðinn aðili að eldfimri, pólitískri deilu, þar eð Gyðingar voru mjög á móti hinni rómversku skattheimtu þótt þeir yrðu að þola hana,enda bjuggu þeir í hersetnu landi.
Frásögnin og svar Jesú minnir okkur á hinn tvöfalda borgararétt kristinna manna, ef svo má segja. Við erum að sjálfsögðu ríkisborgarar í landinu okkar þar sem við þiggjum margs konar opinbera þjónustu, s.s. menntun, aðgang að heilbrigðiskerfi og almannatryggingakerfi. Í staðinn eigum við skyldur við þau veraldlegu yfirvöld sem við kjósum hverju sinni og greiðum okkar skatta. En við erum líka borgarar í hinu himneska ríki. Við það eigum við skyldur sem varða trú okkar og réttlætiskennd. Það kann vel að vera að engir árekstrar verði á milli þessara tveggja heima fyrir okkur hvert og eitt persónulega. En ef trú okkar býður að það sé Guðs vilji að við gerum eitthvað tiltekið, þá verðum við að gera það, og sömuleiðis, ef við teljum að eitthvað sé á móti vilja Guðs, verðum við að standa á móti því og taka ekki þátt í því.
Á þeim erfiðu tímum sem nú hafa dunið yfir okkur, er eitt máttugt vopn sem við getum notað okkur til hjálpar. Það er BÆNIN. Bænin er sterkasta andlega aflið í heiminum. Sagt hefur verið að hún sé andardráttur lífsandans. Í Mattheusarguðspjallinu, í næsta kafla á undan guðspjalli dagsins, er frásagan um fíkjutréð sem Jesús skipaði að visna þegar hann fann ekki ávöxt á því. Þar talar Jesús um trú og bæn. Hann segir: „Sannlega segi ég ykkur: Ef þið eigið trú og efist ekki, getið þið ekki aðeins gert slíkt sem fram kom við fíkjutréð. Þið gætuð enda sagt við fjall þetta: Lyft þér upp og steyp þér í hafið, og svo myndi fara. Ef þið trúið, munuð þið öðlast allt sem þið biðjið.“
Hvað er Jesús að segja okkur í þessum orðum? Meðal annars lofar hann okkur að bænin gefi okkur möguleikann á að öðlast kraft til að framkvæma sjálf. Bænin er ekki hin auðvelda útgönguleið, við erum þá ekki að ýta verkefninu yfir á Guð til þess að hann leysi það fyrir okkur. Bænin er kraftur. Hún snýst ekki um að biðja Guð að gera eitthvað, hún snýst um að biðja hann að gera okkur fær um að gera það sjálf. Bænin er ekki hin auðvelda undankomuleið, hún er til þess að við fáum afl til að geta gengið hina erfiðu leið. Bænin myndar þannig farveg fyrir þann kraft sem við þurfum til að ráða við og færa úr stað heilu fjöllin af erfiðleikum – með hjálp Guðs.
Ef bænin væri aðeins aðferð til að láta gera hlutina fyrir okkur, gæti það gert okkur löt og kærulaus. Bænin er m.a. aðferð til að taka á móti krafti til þess að framkvæma hluti fyrir okkur sjálf. Þess vegna ættum við ekki að biðja og sitja síðan og bíða og gera ekki neitt, við þurfum að biðja og standa síðan upp og vinna og einmitt þá finnum við að nýr þróttur kemur inn í líf okkar og að allir hlutir eru mögulegir í sannleika með Guði og að hið ómögulega verður framkvæmanlegt með Guði.
Bænin snýst líka um að sætta sig við það sem við fáum ekki breytt. Hún er ekki meðal til að flýja frá erfiðleikunum, heldur til að veita okkur kjark til að takast á við erfiðleikana og umbreyta þeim, já, horfast í augu við þá af hugprýði og sigrast á þeim
Bænin gerir okkur einnig fær um að bera þær byrðar sem á okkur eru lagðar. Það er bæði eðlilegt og óhjákvæmilegt að við, með okkar veikburða hjörtu og okkar mannlega veikleika, mætum á leið okkar ýmsu því sem okkur finnst útilokað að við getum afborið. Við fylgjumst kannski með atburðarrás í okkar nánasta uhverfi sem getur endað illa, við vitum kannski um sorg og ástvinamissi sem bíður okkar, við sjáum erfitt verkefni framundan sem mun auðsjáanlega krefjast meira af okkur en við getum gefið eða við verðum fyrir óvæntu höggi.
Á slíkum tímum er trúlegt að okkur finnist sem við munum ekki geta afborið byrðina sem lögð er á herðar okkar. Trú og bæn tekur ekki áfallið í burtu, sýnir okkur ekki undankomuleið frá aðstæðum né veitir okkur undanþágu frá verkefninu, heldur gerir okkur kleift að bera það sem er óbærilegt og geta staðið af okkur það sem við töldum að myndi buga okkur. Þannig verður bænin okkur leið til sigurs og uppbyggingar.
Við flestar kirkjur í þéttbýli er boðið upp á vikulegar bænastundir og/eða bænahópa, m.a. hér í Lágafellssókn. Slíkar stundir er gott að sækja og þær veita styrk til að takast á við erfiðleika sem mæta okkur. Ekki má heldur gleyma að færa fram þakkargjörð og lofgjörð.
Ég vil enda þessi orð mín hér á erindum úr sálmi eftir sr. Friðrik Friðriksson:
Kæri faðir, kenndu mér að biðja
kenndu mér að tala rétt við þig.
Þá ég veit að viltu æ mig styðja
vera ljós á mínum ævistig.
Margt er það sem hefi ég í hjarta
helga von og marga dulda þrá.
Allt það vil ég leiða’ í ljós þitt bjarta
lífsins Guð að ráð þér fái’ eg hjá.
Amen
Guðspjall: Matt 22.15-22.
Hugvekja flutt af Sigrúnu V. Ásgeirsdóttur við guðsþjónustu íí Mosfellskirkju, sd. 26. október 2008, á kirkjudegi Kvenfélags Lágafellssóknar.