„Hlutverk sálgæslunnar er að græða, hugga, styrkja, sætta og leiðbeina“ segir sr. Sigfinnur Þorleifsson í bók sinni „Í nærveru“ sem kom út árið 2001. Einnig segir í þessari ágætu sálgæslubók: „Það er hlutverk sálgæslunnar að vinna gegn þeim innri og ytri hindrunum sem standa á milli Guðs og manns og manns og annars.“
Jesús Kristur er fyrirmynd okkar að sálgæslunni. Hann hlustar án þess að dæma og kærleikur Guðs kemur því til leiðar að hjartað umbreytist.
Mikilvægur hluti sálgæslunnar er samfylgd og eftirfylgd. Þær felast í því að ganga við hliðina á manneskju og fylgja henni í erfiðleikum lífsins og að halda á von hennar þangað til manneskjan er tilbúin til að taka aftur við von sinni.
Samtal er nærvera og hún er m.a. það dýrmætasta sem við getum gefið annarri manneskju. Það er hollt að geta treyst öðrum mönnum, konum og körlum, og fengið skilning og stuðning og viðurkenningu á líðan sinni.
Prestar sóknarinnar veita sálgæslu. Hægt er að hafa samband á skrifstofu Lágafellssóknar í síma 5667113 eða hafa samband beint við prestana.