Jesús sagði: ,,Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður”. Mt.19.4-5.
Hjónavígsla nefnist sú athöfn þegar brúðhjón ganga til kirkju til þess að biðja Guð að blessa hjúskap sinn. Hjúskaparsáttmálinn sjálfur er í eðli sínu veraldleg stofnun. Karl og kona sem heimild hafa til hjúskapar lýsa því yfir í áheyrn votta að þau vilji vera hjón og síðan handsala þau þennan sáttmála. Efnislega er enginn munur á þessu hvort sem um er að ræða borgaralegt brúðkaup eða kirkjulegt. Samkvæmt íslenskum lögum hjafa prestar og forstöðumenn safnaða heimild til að annast þennan borgaralega gjörning. Önnur sambúðarform eru einnig möguleg samkvæmt lögum, en kirkjan kemur ekki nema að þessari, og hefur heldur ekki lagalega heimild til þess. Önnur algeng heiti á hjónavígslu eru brúðkaup og gifting.
,,Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skulið þér og gjöra. En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans. Kól.3. 13b-14.
Það sem greinir kirkjulega hjónavígslu frá borgaralegri er fyrst og fremst ákveðin afstaða brúðhjónanna til kristinnar trúar . Þetta er kristin hjúskaparstofnun. Þessvegna verður amk annað brúðhjónanna að tilheyra Þjóðkirkjunni og gert er ráð fyrir því að ef hjónin eignast börn að þau verði alin upp í kristinni trú. Kirkjubrúðkaup er því grundvöllur að kristnu heimili.
Meginregla er að kirkjubrúðkaup fari fram í kirkju. Í það minnsta skulu vera viðstddir tveir vottar, eða svaramenn, en oftast eru það fleiri, úr söfnuðinum eða fjölskydum brúðhjónanna.
Heimild er fyrir því að giftingarathöfn geti farið fram á heimili eða utanhúss.
Þegar annað eða bæði hjónaefni hafa lögheimili erlendis þá gefa sýslumannsembættin út könnunarvottorð um hjúskaparskilyrði. Nánari upplýsingar um það er að finna á vefjum sýslumannsembættanna.