Fjölbreytileiki í íslenskri mannflóru

Chanel Björk Sturludóttir er baráttukona fyrir jafnréttismál þeirra sem eru af erlendum uppruna á Íslandi. Sem blandaður Íslendingur sjálf, með rætur að rekja til Jamaíku, Bretlands og Íslands, þá hefur Chanel upplifað það að tilheyra mörgum ólíkum menningarheimum. Chanel lauk BA-prófi í Alþjóðlegri fjölmiðla- og samskiptafræði við Háskólann í Nottingham í Englandi, þar sem áhugi hennar á kynja- og kynþáttahugmyndum samfélagsins kviknaði. Eftir námið hóf Chanel störf sem framleiðandi innan auglýsingabransans á Íslandi. Fyrir utan sitt daglega starf sem framleiðandi, hefur Chanel unnið að ýmsum verkefnum tengdum fjölmenningu á Íslandi. Þar á meðal stofnaði hún Hennar rödd ásamt Elínborgu Kolbeinsdóttur, en Hennar rödd eru félagasamtök sem hvetja til vitundarvakningar um stöðu kvenna af erlendum uppruna á Íslandi með ýmsum hætti. Þá var Chanel stjórnandi útvarpsþáttanna Íslenska mannflóran á Rás 1 sem eru viðtalsþættir við blandaða Íslendinga – nú aðgengilegir á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Chanel Björk heldur erindi um fjölbreytileika íslensks samfélags. Fjölmenningarsamfélagið fer vaxandi á Íslandi og um fimmtungur mannfjöldans er af erlendum uppruna, annaðhvort innflytjendur eða Íslendingar sem eiga erlendar rætur í annan ættlegg. Þessar tölur eru svipaðar því sem sést á norðurlöndunum og þessi þróun hefur átt sér stað á skömmum tíma á íslandi. Hvað þýðir það fyrir Íslenskt samfélag? Hvernig hefur þessi fjölmenningarþróun áhrif á þjóðarmynd Íslands? Chanel mun fjalla um þessa þróun í erindinu sínu og mun snerta á sinni eigin upplifun af því að tilheyra tveimur ólíkum menningarheimum.


Ég lá andvaka fyrir rúma viku síðan að hugsa um það sem ég ætlaði að segja hér í dag. Það er svo merkilegt hvernig manni dettur ekkert í hug á svona stundum, þegar maður fær tækifæri til að deila hugsunum sínum við annað fólk, en þegar að enginn er að hlusta þá hef ég einmitt svo margt sem mig langar til þess að segja. Í ritstíflunni minni, mundi ég eftir eina sögu sem ég skrifaði fyrir rúmu ári síðan. Sagan heitir stúlkan og hundurinn.

Mér datt aldrei í hug að ég myndi eignast hund. Ef ég er alveg hreinskilin, þá var ég skelfilega hrædd við hunda frá því að labrador stökk á mig og litlu systur mína eftir að hafa elt okkur um almenningsgarð Í Englandi þegar við vorum yngri. Þetta var sólríkur dagur í Banbury, smábær í Suður Englandi, þar sem ég ólst upp. Ég man eftir óttann sem streymdi í gegnum mig og skömmina fyrir að hafa ekki passað betur uppá systur mína. Mamma kom hlaupandi til okkar og æpti á hundaeigandann, húðskammaði hann fyrir að temja ekki dýrið sitt. Eftir þetta atvik, leit ég á hunda sem villidýr, sem ég myndi aldrei hleypa inn um mínar dyr.

Nokkrum árum síðar, fluttum við fjölskyldan til Íslands, þar sem faðir minn er ættaður. Við systkinin höfðum ekki náð tökum tungumálinu, en við gerðum okkar besta til að eignast vini meðal bekkjarsystkina okkar. Ég man eftir því að vera feiminn og hrædd við að nota þá litlu íslensku sem ég kunni, ef það skyldi vera gerð grín af mér. En það leið ekki á löngu þar til eitt bekkjarsystkinið mitt bauð mér og systur mína heim til sín eftir skóla til að sjá nýju kettlingana hennar. Við eltum hana heim, í nýju dúnúlpunum okkar sem mamma hafði keypt á okkur fyrir veturinn. Stelpan rétti okkur sitt hvorn kettlinginn, ég man hvað mér fannst skrítið að koma við svona lítið og loðið dýr. En systir mín virtist vera sallaróleg, klappaði kettlingnum og hélt honum fast að sér. Mínútum síðar, bunaði gulur vökvi niður dúnúlpu systur minnar. Kettlingurinn hafði pissað á hana. Henni fannst það ekkert svo merkilegt en ég var skelfingu lostinn og bálreið. Mér leið eins og stelpan hafði platað okkur í þessar aðstæður. Henni og gæludýr voru ekki treystandi. Ég fann ekki orðin á íslensku til að tjá mig á þeirri stundu, svo að ég þagði.

Mig langaði aldrei sérstaklega í gæludýr. Ég skildi ekki hvað þótti heillandi við að vera með loðdýr á heimilinu. Mér fannst dýr oft taka svo mikið pláss, á meðan að ég sjálf þorði ekki að taka pláss eða draga athygli að mér. Hvaðan ertu? Hvernig kynntust foreldrar þínir? Af hverju talarðu svona góða íslensku? Má ég snerta hárið þitt? Þetta eru meðal spurninganna sem ég hef verið spurð stundum vikulega, eða daglega, frá ókunnugum, í vinnunni, í matarboðum eða annarsstaðar í gegnum mín fullorðinsár. Forvitni annarra sem var sprottin út frá útlitinu og húðlitnum mínum, varð til þess að ég þráði að gera mig líkari öllum öðrum í kringum mig. Mig langaði til að hljóma eins, líta eins og vera eins og hvítu íslendingarnir sem tilheyrðu meirihlutanum í samfélaginu. Þegar ég hugsa til bara í dag, þá hugsa ég að ég hafi verið afbrýðssöm  út í gæludýr, þar sem þau þurfti aldrei að sanna það fyrir öðrum að þau tilheyrðu.

En nú hef ég átt hundinn minn, Max, lítill chihuahua og mini pinscher, í rúmlega 4 ár. Ég hef ekki enn þá prófað mig áfram í móðurhlutverkinu en ég get ímyndað mér að það séu líkindi milli þess og að vera hundaeigandi. Max sefur, borðar, kúkar og þarfnast mikla athygli, líkt og smábörn… er það ekki? En það jafnast ekkert á við það að gleðipinni taki á móti manni við dyrnar þegar maður kemur heim eftir langan vinnudag.

Já ég heiti Chanel, og ég er hundaeigandi.
En það er ákveðin stund þegar að ég er stoltust af því að eiga hund, þegar ég fer út að labba með hundinn minn. Alla morgna, þá tökum við Max hring í kringum hverfið okkar í miðbæ Reykjavíkur. Max hleypur af stað á undan mér, alltaf í kapp við sjálfan sig, meðan ég set heyrnatólin í og hlusta á hlaðvarpsþátt eða hljóðbók. Ég lít í kringum mig, hvort það séu einhverjir aðrir í göngutúr. Og þegar ég sé einhvern, þá velti ég því fyrir mér hvað þau halda þegar þau sjá mig með Max. Þrátt fyrir útlit mitt og dökka hörundslitinn minn, þá hljóta þau að sjá að ég sé íslensk. Þau hljóta að sjá það þar sem ég er í göngutúr með hundinum mínum. Þessar ítrekuðu spurningar um uppruna minn, hafa haft það í för með sér stöðugur ótti við það að vera stimplaður sem útlendingur. Að einhverju leyti, þá hefur hundurinn minn staðfest tilvist mína, í samfélagi þar sem hún virðist vera stöðugt undir smásjá.

Ég hef lengi velt því fyrir mér, hvað það þýðir að vera Íslendingur. Mögulega meira en aðrir, þar sem ég er ítrekuð beðin um að sanna þjóðerni mitt fyrir öðrum. Sem einsleit þjóð, þá hefur hvítleiki lengi verið ákveðin kennimerki um aðild í íslenska þjóðfélaginu. Þeir sem hafa ekki hvítan húðlit, eða hafa útlit sem gefur það einhvern veginn til kynna að þau eigi erlendar rætur, eru talin vera útlendingar í okkar samfélagi. Húðliturinn minn og útlit mitt, gefur það mögulega til kynna að ég eigi erlendar rætur, að ég tilheyri ekki alveg. En ég hef búið á Íslandi meirihluti ævi minnar og tengsl mín við Íslenska þjóðernið mitt er mun sterkara en tengsl mín við erlendu ræturnar mínar. Ég tala Íslensku og finn þjóðarstoltið sterk í brjóstinu mínu. Hvað er þjóðerni annars, ef það er ekki tilfinning? Hins vegar, virðist það ekki vera nóg. Þar sem þessi tilfinning vegur ekki meira en þjóðarímyndin í augum annarra. Né skiptir það máli að ég sé hundaeigandi.

Ég hugsa oft út í það hvað fólk heldur þegar þau sjá mig út að labba með hundinn minn. stúlkan og hundinn, stúlkan með þeldökka húð og hrokkið, krullað hár. Ég hugsa um alla útlendingana, út að labba með hundana sína. Mér datt aldrei í hug að ég myndi eignast hund. Mér datt aldrei í hug að hundur myndi staðfesta tilvist mína.

Takk kærlega fyrir. Að lokum langar mig til að óska öllum til hamingju með þjóðhátíðardaginn okkar. Á meðan að við fögnum á þessum degi skulum við fagna öllum sem tilheyra samfélaginu, sama hvort þau eigi erlendar rætur, hver kynþáttur þeirra er, eða hvaða húðlit þau hafa. Því þjóðarmynd Íslands er að breytast og einstaklingar af erlendum uppruna setja meiri svip á samfélagið en nokkru sinni fyrr. Því ber að fagna, því fjölmenningin er falleg og við eigum það öll sameiginlegt að búa hér saman á þessari eyju. Fögnum fjölbreytileikanum í íslensku þjóðfélaginu. Gleðilegan þjóðhátíðardag.

Chanel Björk Sturludóttir