Það var mikið fjör í lokahófi Gaman saman í dag en Jógvan Hansen sá um að skemmta með söng og almennri gleði eins og honum einum er lagið.
Starfið hefur verið fjölbreytt í vetur en meðal gesta eru Bogi Ágústsson fréttamaður og fréttastjóri til margra ára, Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarpari og ólympíufari sagði frá ferlinum og upplifun sinni á ólympíuleikunum í París 2024, Ari Trausti Guðmundsson sem flutti erindið ,,Lítt þekkti nágranninn í austri, Ari Guðmundsson, byggingaverkfræðingur flutti erindi um hönnun og byggingu varnargarða við Grindavík og Svartsengi.
Í jólastund Gaman saman kynnti Sigurbjörn Þorkelsson bók sína ,,Kærleikur og Friður – lifi lífið”. Þá fengum við hjónin Sr. Kristján Val Ingólfsson fyrrverandi vígslubiskup í Skálholti og Margréti Bóasdóttur fyrrverandi söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og ræddu þau um störf sín innan kirkjunnar.
Rafn Jónsson, fjallaði um gleymda stríðið í Súdan í máli og myndum. Sr. Henning Emil Magnússon prestur við Lágafellssókn flutti erindið ,,Hvað er svona merkilegt við Bob Dylan“. Ara Trausta Guðmundsson fengum við aftur í heimsókn og fræddi hann gesti að þessu sinni um hvað er markvert að gerast í eldstöðvum landsins. Þá mætti okkar landsþekkta söngkona Hjördís Geirsdóttir með gítarinn og söng.
Umsjón með Gaman saman fer Sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir prestur við Lágafellssókn og erum við strax farin að hlakka til að sjá hvað verður á boðstólum næsta vetur.
Bestu þakkir til allra sem komu að þessu verkefni fyrir veturinn.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

10. apríl 2025 15:47

Deildu með vinum þínum