
Það er komið að því tímabili sem við hlökkum einna mest til í kirkjunni og það eru sjálfar fermingarnar. Nú hafa fermingarbörnin lokið við góðri ástundun í fermingarfræðslunni og uppskeran fram undan sjálfur fermingardagurinn. Hvert og eitt fermingarbarn og fjölskyldur þeirra hafa sjálfsagt undirbúið þennan dag með mikilli gleði og tilhlökkun. Það sama á við um okkur starfsfólk Lágafellssóknar. Fermingarkirtlarnir hafa verið settir í sinn sparibúning með góðri hreinsun, gufugæinn er á sínum stað tilbúinn til aðstoðar ef með þarf og búið er að panta blómin á altarið. Prestarnir semja hugvekjuna og nýja fermingarmessuskráin bíður þess að vera handleikin af spenntum kirkjugestum. Auk starfsfólks Lágafellssóknar erum við einnig svo lánsöm að njóta krafta góðra kvenna sem aðstoða við fermingarnar í sjálfboðastarfi. Kunnum við þeim miklar þakkir fyrir.
Í fyrstu fermingarmessum vorsins sunnudaginn 30 mars kl. 10:30 og kl. 13:30 munu þau sr. Henning Emil Magnússon og sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir þjóna. Organisti er Matthías V. Baldursson auk þess þess munu þau Drífa Nadía Thoroddsen, Katrín Hildur Jónasdóttir og Tómas Guðmundsson syngja. Fiðluleikur er í höndum Matthíasar Stefánssonar.
Við óskum fermingarbörnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með ávöxt vetrarstarfsins.
Starfsfólk Lágafellssóknar
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
27. mars 2025 09:53