
Thelma Rós ráðin æskulýðsfulltrúi Lágafellssóknar
Thelma Rós Arnardóttir 21 árs Mosfellingur hefur verið ráðin sem æskulýðsfulltrúi Lágsfellssóknar. Thelma Rós mun skipuleggja og hafa umsjón með barna- og æskulýðsstarfi safnaðarins, ásamt því að leiða sunnudagaskóla. Yfir sumartímann mun Thelma Rós hafa umsjón með sumarnámskeiðunum sem hafa notið mikilla vinsælda í Mosfellsbæ. Þá mun Thelma Rós leysa kirkjuvörð af og hafa umsjón með samfélagsmiðlum og vefsíðu.
Thelma Rós er með stúdentspróf frá Borgarholtsskóla. Hún hefur mikla reynslu úr barna- og æskulýðsstarfi hjá KFUM&K og Árbæjarkirkju. Hún hefur m.a. verið aðstoðarforingi í Vindáshlíð og ráðskona í Vindáshlíð og Vatnaskógi. Hún hefur einnig varið forstöðukona skólahópa í Vatnaskógi og unnið síðastliðið ár hjá Reykjavíkurborg við íbúðakjarna fyrir fatlað fólk með sértækan hegðunar- og geðvanda.
Á sínum yngri árum tók Thelma sjálf þátt í barnastarfi Lágafellssóknar og segir hún æskulýðsstarf Þjóðkirkjunnar mjög mikilvægt og er stolt af því að hafa síðustu ár fengið að kynna kristna trú á fjölbreytilegan hátt fyrir ungu fólki. ,,Ég er full af hugmyndum og tilbúin að gera gott starf sem þið í Lágafellssókn stundið en betra.“
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
4. mars 2025 11:17