Kirkjukór Lágafellssóknar var stofnaður haustið 1948. Sjálfstætt félag með það markmið að „syngja við kirkjuathafnir í Lágafellssókn og við önnur tækifæri ef ástæður eru til,” eins og segir í lögum félagsins. Félagar hafa notið samvistanna og gert sér glaða daga við og við eftir efnum og ástæðum, svo sem með sameiginlegum leikhúsferðum og ferðum innanlands en ári fyrir fertugsafmælið var efnt til fyrstu utanferðarinnar, sem var til Danmerkur. Þeim hefur síðan verið fram haldið með reglulegri óreglu. Alltaf hafa þetta verið skemmtiferðir en oftast með einhverjum söng. Í upphafi júní 2023 var efnt til ferðar til Skotlands. Leitað var til Skotgöngu með skipulag ferðarinnar. Úr varð 7 daga ferð að ferðadögum meðtöldum. Gist í Glasgow og tvær dagsferðir skipulagðar þar út frá. Söngprógramm sungið í St George’s Tron Church of Scotland við Buchananstræti, flutt 10 valin lög, sum andleg, önnur veraldleg, þar á meðal þrjú lög Mosfellingsins Helga R. Einarssonar við texta Mosfellingsins Halldórs Kiljans Laxness. Til allrar hamingju var söngstjórinn Þórður Sigurðarson með í för. Án hans hefði þetta ekki verið gerlegt. Eins og gengur ná aldrei allir kórfélagar að vera með. Að þessu sinni var þetta rúmlega þrefaldur kvartett, blandaður. Einnig voru í fygld flestir makar, tveir afkomendur og ein systir. Góður hópur sem blandaðist vel. Fyrri dagsferðin var farin til Edinborgar þar sem ekið var um götur og gengið um garð, í blíðskapar veðri og glampandi sól. Veðri sem var okkar fylginautur allan tímann. Seinni dagsferðin var upp í Hálöndin. Staldrað var við í gömlu viskíbrugghúsi þar sem tröppugangur var verðlaunaður með „wee dram” sem reyndist lúsarleki af einni tegund framleiðslunnar sem þarna er tappað á flöskur. Málsverður í stað sem heitir Aberfoyle og er í senn alidýragarður og framleiðsla ullarvöru, auk þess að vera kaupstaður. Einnig staldrað við á baðstað og bátalægi við Loch Lomond. Á „frjálsum dögum” gerðu menn sér til dundurs eftir geðþótta, fóru í búðir og aðrar gönguferðir með viðkomu á söfnum og fleiri menningarstöðum, svo sem ýmsum brynningarstöðum þar sem misstórir hópar ferðafélaga áðu sér til gamans. Sumir skoðuðu gamlar kirkjur. Það endaði með því að ein söngsystirin var skilin eftir í kirkjugarðinum við gömlu dómkirkjuna. Hún reyndist þó eiga þaðan afturkvæmt. Vert að geta þess að vel fór um hópinn á Hotel Indigo. Notalegu hóteli nokkuð miðsvæðis. Heimilislegt andrúmsloft og starfsmennirnir liðlegir og hjálplegir.
Sigurður Hreiðar kirkjukórsmeðlimur ritaði.
Bogi Benediktsson
14. júní 2023 08:41