Prédikun sr. Sigurðar Rúnars Ragnarssonar
29. maí 2022 kl. 14 í Mosfellskirkju
Sjötti sunnudagur eftir páska
Guðspjall: Matteusarguðspjall 20. 1-16
1 Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. 2 Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. 3 Síðan gekk hann út um dagmál[ og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. 4 Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. 5 Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón[ og gerði sem fyrr. 6 Og á elleftu stundu[ fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? 7 Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn.
8 Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. 9 Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. 10 Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. 11 Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. 12 Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.
13 Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? 14 Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. 15 Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?
16 Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“
Við skulum biðja til Drottins:
Þú Drottinn færð oss öllum verk að vinna,
og sérhver vill sín laun að kveldi dags.
Og þurfandi oft koma því og sinna,
er þarf að gera allt til sólarlags.
Og verkamanns að kveldi léttist lund,
eftir langan dag og litla rest.
En sá sem vinna fór í fáa stund,
fékk sömu laun og þeir sem unnu mest.
Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Er Guð ranglátur húsbóndi? Víst fór hann undarlega að, húsbóndinn í sögunni sem réði nýjan starfsmann undir lok vinnudagsins og greiddi síðan laun, sama kaup og hinir fengu undir lok vinnudagsins. Ekkert verkalýðsfélag líður slíkt. Var ekkert spurt um hver ætti hvað skilið? Þar sem næg atvinna er, er ekki spurt hvað getur þú unnið lengi, heldur hve ánægður ert þú að vinna! Þú ert kallaður til starfa í guðsríki, hver sem þú ert og hvar sem þú ert. Sú köllun er hluti af Guðs gjöfum. Ekki sem nauðung, og ekki sem skylda, heldur af frjálsum vilja eða innri þörf. Þú finnur fljótt að þetta er og verður samstarf- þú færð að vera með Guði í verkum hans og vinnur af gleði fyrir hann. En hvað ertu að gera?
Flest sem þú gerir í þessu starfi, gerir þú af gleði, næstum án allrar umhugsunar, án sérstakrar hvatningar og án afskiptasemi annarra. En hvað er það starf? Það er að elska náungann eins og sjálfan þig. ég geri ráð fyrir að þú sért í þessu starfi, annars værir þú atvinnulaus, illa liðinn og fátækur vegna skorts á góðum verkum. Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki.
Sælt er að fá að starfa með Drottni. Hve oft höfum við ekki heyrt aðra segjast vera í sjöunda himni? Það er aðeins af því að þeim líður vel. Og hvenær og hvers vegna líður þeim vel? Þegar þeir hafa gert eitthvað sem gleður þá og jafnvel aðra um leið. Það er gleðin sem felst í því að vera samverkamaður Guðs, í víngarðinum.
En frásögnin um undarlega húsbóndann í guðspjalli dagsins ber ekki vott um neina gleði. Og þó. Það var gleði hjá verkamönnunum sem fóru í víngarðinn til að vinna. Við vitum að atvinnuleysi er ekkert grín. Því gripu þeir fegins hendi að fá að starfa. Auvitað verðum við öll að geta lifað af.
Þeir spurðu því hvorki ekki um launin, né vinnutímann svo mikill var áhuginn og ákafinn að fá að vinna. Slík var hamingjan að geta aflað sér tekna. En svo kemur kvöld. Starfsdegi er lokið. Verkalaunin greidd. Sá sem aðeins vann eina stund, fær sömu laun og allir hinir. Og alltaf finnst okkur það jafn hneykslanlegt, að Guð skuli ekki meta afköst og endurgjald á sama hátt og við erum vönust. En einmitt þetta vill Jesús benda á með dæmisögunni. Að í Guðsríki gildir allt annað mat.
Þar gildir réttlæti kærleikans. Ein stund gefin Guði er gulls ígildi. Hér horfum við á launin. – Ekki þar. Hér er ávinningur verka okkar mældur með annarri mælistiku. Þar er náðargjöf Guðs.
Einmitt sú náðargjöf að við getum úthellt kærleika okkar til annarra, án þess að meta það til fjár. Án þess að hugsa; nú var ég að græða. Gróði er afstæður. En við vorum samt ekki að tapa.
Eitt lítið bros, gæti kostað kannski 150 krónur á mannlegu verðlagi, en gefur tífalt meira á mælikvarða Guðs. Þess vegna er þér launað í öfugu hlutfalli við það sem þú telur þér til tekna. Haltu því áfram að brosa og græða með Guði. Gera öðrum gott og bera fram af sjóðum hjarta þíns.
Þannig ávöxtum við störf okkar fyrir Guð, í honum og með honum. Fyrir Guði eru allir jafnir. Þú sem kemur til starfa með honum, færð þinn stað, stund og starf. Starf í gleði, gulls ígildi.
Verkin eru margvísleg, en húsbóndinn einn og sannur. Alltaf samkvæmur sjálfum sér, þótt við fáum hann aldrei skilið til fulls. Og laun þín eru mikilsverð vegna þess að þú færð að starfa með honum, vera í verki með honum. Gagnvart Guði ert þú ávallt þiggjandi, líkt og hinir sem komu til starfans og þáðu vinnuna. Um leið og starfið er þegið, lútum við valdi hans sem húsbónda er segir; Allt mitt er þitt. En ég met framlag þitt.
En hvað er það sem þú átt með Guði?
Þú átt þessa kirkju hér, helgidóm. Hún er það sýnilega og áþreifanlega sem hefur verið helgað honum, en er um leið það sem þú átt með honum. Hér er mótsstaður þinn við hann, þegar þú kemur til að vera með söfnuðinum í samfélagi andans. Fátt annað er áþreifanlegt sem þú átt á ytra borði. Biblían er auðvitað þín, skírnin þín, Guðs orð gefið þér og öllum öðrum til að vaxa og þroskast af. Flest annað er huglægt og verður einskonar tenging milli þín og Hans. Hugleiddu það.
Þó er annað líka til í þessum heimi, sem gleður marga menn og konur. Þroskar og veitir innsæi og færni ef þroski og skilningur fara saman. Það fyrirbæri krefst næmni, umhyggju og virðingar. Fyrirbærið er auðvitað sköpunarverk eins og maðurinn sjálfur. Til ykkar hestamanna og gesta vil ég beina orðum mínum. Er einhver að giska?
Það er hesturinn, fullur af krafti fegurð og gæðum. Fátt annað betra hressir sálina og vekur þroska um leið, við að finna gleðina í samleið og hugarsamandi við hestinn. Þegar ég eignaðist minn fyrsta hest varð ég ríkur. Ríkur andlega og stoltur.
Fylltist metnaði og varð virkur í að afla mér færni og þekkingar á sviði hestamennsku af auðmýkt og innsæi. Spurði ekki um launin í veraldlegri merkingu, en vann í víngarðinum kauplaust.
Og fátt hefur gefið mér meiri gleði en hesturinn okkar. Ég veit að það á líka við um ykkur öll. Að eiga hest og njóta er að virkja víngarðinn á vissan hátt með því sem þessu fylgir.
Þar er verkamaðurinn dæmdur af verkum sínum einnig. Margir hafa gert ljóð um hesta og lýst fegurð þeirra, hughrifum af nálægð við þá og samskiptum. Bæði listamenn, teiknarar og skáld og auðvitað sérhver hestamaður á í hjarta sínu órímað ljóð um þær óskastundir, sem gefist hafa við ótal tilefni og tækifæri í einstakri upplifun og oft í bland við sjálfa náttúruna. Svona er túlkun Einars Benediktssonar á hestinum:
Hesturinn, skaparans meistaramynd,
er mátturinn, steyptur í hold og blóð, –
Sá sami sem bærir vog og vind
og vakir í listanna heilögu glóð.
Mundin, sem hvílir á meitli og skafti,
mannsandans draumur í orðsins hafti, –
augans leit gegnum litanna sjóð
– allt er lífsins þrá eftir hreyfing og krafti.Maður og hestur, þeir eru eitt
fyrir utan hinn skammsýna markaða baug.
Þar finnst hvernig æðum alls fjörs er veitt
úr farvegi einum, frá sömu taug.
Þeir eru báðir með eilífum sálum,
þó andann þeir lofi á ólíkum málum
– og saman þeir teyga í loftsins laug
lífdrykk af morgunsins gullroðnu skálum.
Annað fallegt ljóð um hestinn og guðlegan undirtón hófanna hefur náð til útlanda, sem er tjáning manneskju um hestinna og hesta. Það er ljóðið Hófatak, eftir Guðfinnu frá Hömrum í Reykjadal.
Gunnar vinur minn og fóstri, Bjarnason, ráðunautur sem allir muna, hann snaraði þessu á ensku á 25 ára afmæli FEIF, sem haldið var í Viðey 1994, en það var stofnað 1969. Ljóðið vakti strax áhuga fundargestanna, en Gunnar las það upp á samkomunni. Hér eru tvö erindi af fjórum á íslensku og snarað á ensku:
Fáksins dunandi hófahljóð
á hrynjandi guðlegs máls.
En svipmótið hjó af næmi og náð
náttúran eilíf og frjáls.
Hún meitlaði brún og fallandi fax
og fegursta brjóst og háls.
The horses thundering hoofsounds
have the rhythm of divine tongue.
But the look sculptured by genius and grace
the Nature eternal and free.
She chiselled brows and falling mane,
and the prettiest chest and neck.
Og Drottinn blessar hinn harða hóf,
er hörpu vegarins slær,
sem knýr fram tárin úr klökkri rót,
en kletturinn undir hlær
Þótt hófsporin blæði um særðan svörð,
að sumri það aftur grær.
And God is blessing the hardy hoof
which is playing the bridlepath’s harp
And is pressing tears from the weakest roots,
but the rock is laughing beneath.
Though hoofsteps bleed on wounded sward
next summer it grows again.
Er ég minnist Gunnars heitins, þá kemur upp minning sem ég hef valið til að leyfa ykkur að njóta með mér. Þið getið það enn frekar eftir þessa stund, er þið komið heim og farið í sjónvarp eða tölvu og símann ykkar ætti að vera auðvelt að kalla eftir henni á einfaldan hátt á You tube.. the Ponies og Miklaengi
Þetta er falleg kvikmynd sem við áttum báðir þátt í að gera, með amerískum kvikmyndagerðarmönnum, sem komu gagngert til að gera þessa mynd um börn og hesta á Íslandi.
Þessi mynd heitir á frummálinu The Ponies og Miklaengi. Upphafið er barnabók sem bandariskur ferðamaður á leið til Evrópu skrifaði, án þess að hafa nokkurntímann séð lifandi íslenska hesta á nokkrum bæ hér. En hann var að skoða bækling sem var á þýsku með myndum eftir frú Ursulu Bruhns litmyndir frá Íslandi og börn á hestbaki.
Meira þurfi nú ekki. Lonzo Anderson fær hugmyndina í flugi frá Íslandi til Evópu, og til verður barnabókin The Ponies of Miklaengi útg. fyrsta júní, 1966, og hún varð vinsæl í Bandaríkjunum. Nafnið er skáldað en samt svolítið íslenskt. Nöfn barnanna voru óíslensk.
Næst gerist það að ég sem var starfandi free lans fyrir Búvörudeild Sambandsins, er boðaður á fund Agnars Tryggvasonar forstjóra deildarinnar og sýnt bréf frá amerískum kvikmyndagerðarmönnum, sem vildu koma og mynda börnin á Miklaengi með hestana sína.
Við brostum nú í fyrstu, en sáum svo eftir því sem við lásum í bréfinu, að þeim var dauðans alvara. Þeim hafði verið falið að gera mynd eftir sögunni til að sýna í öllum bókasöfnum í Ameríku, er verið var að taka í notkun fjölfræðslu með hljóð og mynd, til að börn hefðu meiri afþreyingu í myndefni. Við buðum þeim að koma Þeir komu svo hingað til lands með allt sem þurfti til kvikmyndagerðarinnar, 1978.
Ég hafði þá farið um Suðurlandið og leitað að góðum tökustöðum. Þeir filmuðu í grennd við Heklu, og nú var Gunnar Bjarnason kominn á flug. ,,Það verður að vera Hekla, það verður að sýna Kirkjubæ og hrossin þar, og það verða að vera börn vön hestum!“. Þetta gekk allt upp.
Við vorum að mestu kringum Hellu allt austur að Seljalandsfossi og í uppsveitum Árnessýslu.
Börnin sem valin voru heita ‚Guðmundur og Anný, en þau voru frá Geldingaholti og alvön hestum. Þau voru líka góðir leikarar og dugleg.
Landslagið sveik engan og flottar senur auk þess sem við vorum á Hellum í Landssveit, sem við köllum því Miklaengi. Gummi og Anný eru aðalleikararnir á fallegum hestum en einnig kemur Reynir Aðalsteinsson við sögu og hundurinn hans Spori. Sem hafði talsvert hlutverk.
Söguþráðurinn fylgdi bókinni eins og kostur var, en svolítið líka frítt spil þar sem voru fallegir tökustaðir. Gráni Jóhanns í Kápunni var hestur Gumma, en hann var hvítur og flottur klárhestur með tölti og mikið fax og fór vel undir. Þannig var reynt að hafa flottan íslenskan hest.
Anný sat blesótta hryssu sem átti að vera fylfull. Söguþráðurinn er á Miklaengi, þar sem bóndinn ( Reynir) er að huga að kindum og að kvöldi er rekið saman, en þrjár kindanna hafa strokið burt frá hjörðinni.
Myndin byrjar á að börnin eru í reiðtúr saman. Sterk mynd af börnum á hestbaki , börn á hestum í fallegu landslagi, og á vegi þeirra verður Freyja, sem þá var að temja í Kirkjubæ og það koma 60-70 blesótt hross á fullu blasti sem er verið að færa milli hólfa. <þau kasta kveðju á Freyju og Anný segir að hryssan hennar Hekla muni kasta í næsta mánuði.
Næsta dag ætlar bóndinn að fara og leita kindanna, en þá biðja börnin hann svo heitt að mega fara og leita þeirra. Þannig spinnst þetta áfram. Þau halda áfram að leita og eru komin upp að Heklurótum, finna ullarlagð og fylgja slóð eftir kindur. Slóðin var látin liggja að Seljalandsfossi, til að fá stórbrotið landslag, og þau gleyma sér við fossinn, en ranka svo við sér og leita til fjalla og stefna heim á leið. Þau lenda í háska, það byrjar með jarðskjálfta og hann kemur sterklega fram á Miklaengi.
Þar eru móðirin Guðný Helgadóttir leikkona sem lék móður barnanna. og María Markan, óperusöngkona sem er amma barnanna: Og hún lét sér annt um börnin og syngur þau í svefn á kvöldin með söng; Snemma lóan litla í…. Og bí bí og blaka, sem Gunnar lagði áherslu á enda þjóðlegt. Allt var gert til að minna á Ísland.
Nú er liðið á daginn og börnin ekki komin til baka. Þau heima eru farin að óttast um börnin. Faðirinn leggur af stað með hund sinn. Brátt sér hann Grána koma á stökki til hans og hann fer á bak honum og þar fær töltið að njóta sín, og fljótlega finnur hann börnin í hraungjótu, heil á húfi. Ýmis ævintýri eru heima á meðan þetta gerist, á bænum. Þegar börnin þá hafði Hekla hryssan hennar Annýjar kastað folaldi.
Og eins og góðri mynd sæmir, lýkur henni með Happy ending. Við Ragga bæði lögðum okkur fram. Og eigum góðar minningar og mikla vináttu við Gary og Dan sem urðu miklir vinir okkar. Myndin er skínandi góð og höfðar sterkt til barna á svo margan hátt, enda var það markmið leikstjórans að fá börnin til að lifa sig inn í söguþráðinn og samsama sig börnunum í myndinni. Margar senur þannig að áhorfandinn gleymir sér og hún er á margan hátt svo íslensk.
Þessi mynd hefur svolítið fallið í gleymsku, en meðan ég var hjá LH lét ég setja hana á myndband, en filman var lengi vel til i Búvörudeild. Myndin varð feikna vinsæl í Bandaríkjunum og fékk fimm stjörnur bæði sem bók og kvikmynd. Hún er 25 mínútur að lengd og með ensku tali. En, en ef þið hafið áhuga er hægt að sækja hana á YouTube undir: The Ponies of Miklaengi. Höfundur er Lonzo Anderson. Daniel G. Smith & Gary Templeton stóðu að gerð þessarar myndar og var Gary Templeton lekstjóri og producer. Hann er þekktur fyrir þessa listgrein að taka barnabækur og gera þær lifandi svo að börn geta lifað sinn inn í sýndarveruleikann.
Sá drekkur hvern gleðinnar dropa í grunn,
sem dansar á fákspori yfir grund.
Í mannsbarminn streymir sem aðfalls unn
af afli hestsins og göfugu lund.
Maðurinn einn er ei nema hálfur,
með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.
Og knapinn á hestbaki er kóngur um stund,
kórónulaus á hann ríki og álfur.Ef inni er þröngt, tak hnakk þinn og hest
og hleyptu á burt undir loftsins þök.
Hýstu aldrei þinn harm. Það er best.
Að heiman, út, ef þú berst í vök.
Það finnst ekki mein, sem ei breytist og bætist
ei böl sem ei þaggast, ei lund sem ei kætist
við fjörgammsins stoltu og sterku tök.
Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist.
Verum öll trú í verkum okkar. Þú sem kemur til starfa með honum, færð þinn stað, stund og starf. Fyrir Guði eru allir jafnir. En það er hann sem úthlutar störfunum og velur sér verkamenn. Og þegar þú þiggur starfið, verður þinn staður þar sem hann veit að hæfileiki þinn fær að blómstra. Hann treystir þér.
Hann leggur sitt volduga verkefni í manna hendur, til þess að hlutverk okkar verði meiri meðal annarra, sem tengjast þannig veruleik hans og fá tilgang. Þannig er skapað til að gefa og veita, byggja upp og fá útás. Það færir hestamennskan okkur. Og eru margir kallaðir en fáir útvaldir.
Þau sem hann fyrirhugaði hefur hann og kallað. Þau sem hann kallaði hefur hann og réttlætt, og þau sem hann réttlætti hefur hann og gert vegsamleg. Það er hluti af fagnaðarerindi hans til okkar. Höfum það hugfast og meðtökum það af auðmýkt.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og friður og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.
Prédikun eftir sr. Sigurð Rúnar Ragnarsson, flutt 29. maí 2022 í Mosfellskirkju.
Bogi Benediktsson
1. júní 2022 10:40