Í stað guðsþjónustu í Lágafellskirkju 22. nóvember 2020.
Síðasti sunnudagur eftir þrenningarhátíð
,,Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir“. Jóh. 6:35.
Þar sem ekki hefur verið hægt að halda úti reglulegum guðsþjónustum í safnaðarkirkjunum síðustu vikurnar, ákvað ég að taka guðspjall dagsins og setja það saman í þessum erindum. Þetta er ort í samhengi við guðspjall dagsins sem er ritað í Matteusarguðspjalli.
Þessum sið að yrkja út frá guðspjalli dagsins eða móta textann í bæn, hefur fylgt mér frá fyrstu dögum er ég vígist sem prestur til þjónustu við söfnuðina í Mosfells- og Lágafellsókn. Ég vona að lesandinn virði viljann fyrir verkið.
Á þessum fordæmalausu tímum höfum við prestarnir leitað ýmissa leiða til boðunar og reynt með ýmsum hætti að finna fjölbreytni í boðun Orðsins til safnaðanna. Hér er mitt framlag í þeirri viðleitni, að í stað hefðbundinnar guðsþjónustu kemur útlegging mín á guðspjalli dagsins.
Vona ég að hún megi engu að síður ná til safnaðarins og þeirra sem áhuga hafa á að lesa og íhuga með mér þennan texta dagsins. Með kærri kveðju og ósk um að þú lesandi góður sem vitjar vefsins okkar og á heimasíðunni, megi þessi tilraun bætast við sem eitt úrræðanna í boðun kirkjunnar. Guð gefi okkur öllum góðar stundir.
Sigurður Rúnar Ragnarsson prestur í Mosfellsprestakalli.
Mt. 25: 31-46. Þegar Mannsonurinn kemur.
Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta….. Mt. 25:35
Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta….. Mt. 25:42
Við sjáum þig koma Kristur með þínu liði.
kall þitt hljómar upphátt öllum lýðum.
Og þjóðir koma að þínu gullna hliði,
þar sem við öll á dóminn stóra hlýðum.
Þú mælir fram og metur hvert og eitt,
metur það sem okkur varð að gagni.
Hve við öðrum gæfu gátum veitt,
gæfa sú skal vegin eftir magni.
Til beggja handa, hafrar fara og sauðir,
hér skal dæmt með augum frelsarans.
Þar er ljóst að margir mælast snauðir,
menn sem ekki gættu náungans.
En þeir sem reyndust náunganum næstir,
njóta þess að fylgja Drottins hjörð..
Þeir munu á himni verða hæstir,
þeir hógværu sem erfa munu jörð.
En þeir sem góðverk engum manni unnu,
urðu að lúta fyrir hinu sanna.
Örlögin þeim illa þræði spunnu,
er búa nú við grát og gnístran tanna.
Það var of seint að gerast öðrum góður,
færi gafst þó á að hjálpa snauðum.
Þeir sinntu ekki sínum minnsta bróður,
sem þeir vissu þó að var í nauðum.
Og þannig okkur ávallt Drottinn dæmir,
dæmisagan okkur á það bendir.
Að framkoma sem engum manni sæmir,
sýnir hvernig margur illa lendir.
,,Og það sem minnsti bróðir mátti líða
munuð þið og sjálfir fá að reyna.
Undir þessum gjörðum svo mun svíða,
svikinn var ég, – því er ekki að leyna“. Amen.
Sigurður Rúnar Ragnarsson
Friður Guðs og blessun sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu vor og hugsanir í Kristi Jesú Drottni vorum.
Amen.
Bogi Benediktsson
22. nóvember 2020 09:15