Lágafellskirkja í samstarfi við bæjarhátíðina Í túninu heima bjóða til tónleika í Lágafellskirkju miðvikudaginn 28. ágúst kl 20:00. Hljómsveitin GÓSS kemur fram og syngur hugljúf lög af nýútkominni plötu sinni, Góssentíð sem var einmitt tekin upp í Lágafellskirkju á vormánuðum 2019.
Tónleikarnir eru styrktir af bæjarhàtíðinni og því er frítt inn á tónleikana. Hér er viðburðurinn á Facebook.
Hljómsveitin Góss er tríó, skipað þeim Sigríði Thorlacius, Sigurði Guðmundssyni og Guðmundi Óskari Guðmundssyni. Er nafn sveitarinnar einmitt sett saman úr fyrstu stöfunum í nöfnum meðlima.
Þau Sigríði Thorlacius og Sigurð Guðmundsson þarf vart að kynna en þau hafa lengi verið á meðal dáðustu söngvurum þjóðarinnar. Guðmundur Óskar er einn fremsti og fjölhæfasti bassaleikari landsins en hann hefur leikið með ótrúlegum fjölda hljómsveita, auk þess að vinna sem upptökustjóri fyrir fjölmörg verkefni.
Sveitin tengist sterkum fjölskyldu- og vináttuböndum en Guðmundur Óskar og Sigurður eru bræður, Sigríður og Guðmundur eru saman í Hjaltalín og öll þrjú hafa þau unnið saman í fjölmörgum mismunandi verkefnum. Það má því segja að það hafi verið nokkuð fyrirsjáanlegt þegar hljómsveitin GÓSS varð til sumarið 2017. Þá lét sveitin draum verða að veruleika og hélt í tónleikaferð um landið. Sveitin endurtók förina árið eftir og hefur jafnframt spilað við alls kyns tilefni um allt land.
Hvar sem sveitin hefur stigið á stokk hafa móttökurnar verið gríðarlega jákvæðar, og því fannst meðlimum sveitarinnar ekki annað hægt en að drífa sig í upptökuverið og reyna að fanga þann góða og ljúfa anda sem skapast hefur á tónleikum sveitarinnar.
Arndís G. Bernhardsdóttir Linn
20. ágúst 2019 13:11