Kyrrðarstundir verða í Mosfellskirkju laugardagana 28. maí og 4. júní frá 9:00 til 11:00. Í fallegu umhverfi í Mosfellsdalnum verður komið saman í kirkjunni og íhugað eftir aðferð Kyrrðarbænarinnar, gengið í dalnum eða á Mosfell og að lokum komið aftur til kirkju þar sem gengið verður til altaris.
Á kyrrðardeginum förum við í hvarf og tökum okkur hlé frá daglegri önn. Þögnin og kyrrðin veita tækifæri til íhugunar, að mæta sjálfum sér og Guði, að sjá líf sitt í nýju ljósi, vinda ofan af sér veturinn og láta uppbyggjast og endurnærast á sál og líkama. Kyrrðarbænin er einföld hugleiðslu aðferð innan kristninnar hefðar sem auðvelt er að læra og tileinka sér. Finna má nánari upplýsingar um hana á heimasíðu Kyrrðarbænasamtakanna, www.kristinihugun.is Umsjón hefur sr. Arndís G. Bernhardsdóttir Linn og hægt er að skrá sig á netfanginu arndis.linn@lagafellskirkja.is eða í síma 866 8947. Ekki er greitt fyrir þátttöku og eru allir velkomnir.
Fyrri kyrrðarstundin er hluti af viðburðum í Hreyfiviku UMFÍ.
Arndís G. Bernhardsdóttir Linn
26. maí 2016 09:27