Barnaleikritið ,,Sálin hennar ömmu“ verður sýnt í Sunnudagaskólanum í Lágafellskirkju næstkomandi sunnudag, 29. september kl:13:00.Aðgangur er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir. Leikritið er óbeint framhald af leiksýningunni Ósýnilega vininum sem leikhópurinn sýndi við góðar undirtektir á sínum tíma og er enn í gangi. Í nýja verkinu halda vinirnir Jónatan og Pála áfram að velta fyrir sér lífinu og tilverunni, fara í ferðalag til að bjarga ömmu hennar Pálu og lenda í miklum ævintýrum.
Leiksýningar Stoppleikhópsins hafa verið rómaðar því þær eru uppfullar af mannlegri hlýju og húmor ásamt því að fræða börnin um kristilega hugsun og gjörðir. Þær hafa verið vinsælar og víða leiknar í sumarbúðum, leikjanámskeiðum og æskulýðsstarfi kirkjunnar svo eitthvað sé nefnt. Stoppleikhópurinn hefur verið í fararbroddi íslensks barna – og unglingaleikhúss í 16 ár. Hópurinn hefur haft það að leiðarljósi í verkum sínum sem sýnd hafa verið á Höfuborgarsvæðinu sem og út um land allt, að sýna börnum og unglingum heiminn í gegnum leikhúsið, fræða og skemmta þeim og ekki síst vekja þau til umhugsunar.
Arndís G. Bernhardsdóttir Linn
26. september 2013 13:05