Flutt 25. janúar 2009 · Mosfell
Postularnir sögðu við Drottin: „Auk oss trú!“
En Drottinn sagði: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður.
Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann þegar hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? Segir hann ekki fremur við hann: Bú þú mér kvöldverð, tak þig til og þjóna mér meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið. Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gera það sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gert allt sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér. Vér höfum gert það eitt sem oss bar að gera.“Lúk 17.5-10
Mikið er ég búin að hlakka til að eiga þessa stund í dag með ykkur. Ykkur sem stödd eruð hér í Mosfellskirkju, í dal skáldsins og með ykkur öllum sem heima eruð og sitjið við útvarpstæki.
Að eiga samfélag, koma fram fyrir Guð, hlusta á hans orð, syngja og biðja saman.
Ég hef hlakkað til að ganga inn í þetta skjól, Guðs hús, rými hans. Hingað göngum við inn til að hlusta á hann, heyra hvað hann vill við okkur segja í orði sínu, taka á móti því og hleypa því að hjarta okkar, leyfa því að hreyfa við okkur og ganga að því búnu héðan út í bæn um að vera leidd af hans vilja.
Síðustu dagar, vikur og mánuðir hafa verið íslensku þjóðinni erfiðir og ekki sjáum við fyrir endanum á þeim ósköpum sem yfir okkur hafa dunið. Efnahagur þjóðarinnar og hugmyndakerfi það sem bar hann uppi og við vorum öll vafinn inn í með sýnilegum og ósýnilegum þráðum, er hrunið. Afleiðingarnar víðtækar fyrir land og þjóð.
Það er enginn einstaklingur sem fer ósnortinn í gegnum þennan umbrotatíma þjóðarinnar. Ekkert er eða verður eins og áður var. Allt er breytt. Það er ekki sársaukalaust. Það verkjar og jafnvel blæðir.
Það ríkir ástand óöryggis og óvissu, ótta og vanmáttar, undir allri reiðinni sem hefur reynt að finna sér farveg, til að verja það sem veikast er og dýrmætast.
Stórar spurningar eru á lofti, sem krefjast svara og hin sönnu gildi í mannlegum samskiptum sem við viljum byggja á eru dregin fram í ljósið, sem viðmið og mælikvarði á stöðu mála og þær lausnir sem endurreisnin skuli byggð á.
• • •
Réttlæti í stað ójafnaðar, frelsi í stað þöggunar, virðing í stað hroka, samstaða í stað sundrungar, umhyggja í stað eyðileggingar.
Öll viljum við það. Öll viljum við lifa í samfélagi sem grundvallast á þeim gildum.
Öll vitum við innst inni og höfum þar víðtæka reynslu kynslóðanna til að styðjast við að það er vegurinn til farsældar einstaklingunum og þjóðinni allri.
Það hefur arfur aldanna sýnt í okkar kristna landi, að til þess að komast inn á þá braut, halda stefnunni og ná áföngum á leið okkar að því markmiði, útheimtir það að við sýnum stöðuga árvekni í lífi okkar og starfi alla daga.
Við erum núna kölluð til þess að breyta um stefnu.
Það er kallað eftir því að vald ástarinnar, umhyggjunnar fyrir þjóðinni og kærleikans til náunga okkar ráði för okkar til framtíðar en ekki ástin á valdinu til að stjórna og umhyggjan fyrir hinni blindu peninga- og gróðahyggju.
Við eigum sem einstaklingar og þjóð nægan kraft og hugrekki í þá vinnu sem er nauðsynleg til þess að það megi rætast.
Leiðin til framtíðar er vörðuð iðrun, fyrirgefningu og sátt. Þá leið getur enginn skotið sér undan að ganga sem vill vera með – ekki kirkjan, ekki stjórnvöld, ekki ég frekar en þú. Þar eru samræðan, samtalið, gagnkvæm hlustun og virðing afgerandi ef okkur á að þoka áfram.
Við þekkjum þessa leið úr okkar persónulega lífi og vitum að það ferli tekur mislangan tíma, kostar ýmiss konar tiltekt í hugsun og sálarlífi, ásamt margs konar brölti, baráttu og öðru góðu. En það verður engin framþróun, engin nýsköpun, án þeirrar tiltektar.
Það getur létt okkur sporin að við göngum saman leiðina til framtíðar, styðjum hvert annað og hvetjum og pössum upp á hvert annað ef við erum að fara út af sporinu eða einhverjir hjallar reynast okkur erfiðir.
Það var magnaður atburður sem átti sér stað fyrir framan stjórnarráðshúsið í liðinni viku þegar hluti mótmælenda stillti sér fyrir framan lögregluna til að verja hana og róa meðbræður sína. Hann er einn af þeim mörgu táknrænu gerðum fólksins sem hefur tjáð vilja þess og löngun til þess að ganga saman leiðina til framtíðar.
,,Það er kallað eftir því að vald ástarinnar ráði för en ekki ástin á valdinu – að við breytum um stefnu”
• • •
En hver er það sem kallar?
Hvaða afl hreyfir við okkur af slíkum krafti.
Afl sem krefst þess að jöfnuður ríki og að við byggjum hér upp samfélag manna þar sem hver þegn hefur möguleika á að þroskast og blómstra?
Að hér á landi sé stjórnskipan lýðræðisleg, gagnsæi sé á hlutunum, að maðurinn hér og í öllum heiminum sé metin að verðleikum, sem manneskja, en ekki farið með hann eins og dauðan hlut í tilfinningalausu gangvirki peningahyggjunnar.
Kæru vinir – þetta er rödd kærleikans!
Þetta er kraftur kærleikans.
“Auk oss trú” Drottinn. Hjálpaðu okkur að treysta kærleika þínum, að greina þinn veg og að ganga hann.
Er ástæða til í dag að við biðjum Jesú, Guð um að auka okkur trú?
Að við lítum í eigin barm eins og lærisveinarnir forðum og biðjum þess fyrir hönd okkar sjálfra og annarra?
,,Auk oss trú!”
Trú, vantrú okkar eða trúleysi er sá grundvöllur sem allar okkar gerðir, orð, hugsanir eru reistar á. Þar endurspeglast viðhorf okkar til lífins og annarra manna og sú mynd sem við höfum af okkur sjálfum.
Jesús svaraði lærisveinum sínum á þá leið, þegar þeir báðu hann að auka sér trú, að ef þeir bara hefðu trú á stærð við mustarðskorn gætu þeir komið hinum ótrúlegustu hlutum í verk.
Jesús kom til okkar mannanna til þess að segja okkur frá og sýna okkar hver Guð er.
Allt það sem hann hefur opinberað okkur er hægt að tjá með þremur orðum: “Guð er kærleikur.”
Þegar við byrjum að trúa því að Guð elskar okkur hvert og eitt persónulega af eilífum kærleika og að hann ber ótakmarkaða alúð og umhyggju fyrir okkur, þá verður trú okkar þannig að hún getur flutt fjöll úr stað.
Sönn trú er trú á kærleika Guðs. Slík trú fyllir okkur djúpum friði. Friðurinn er merki þess, að trú okkar er sönn og hann er ekki háður tilfinningum, hann er til staðar óháð ástandi, glímu og erfiðleikum.
Að trúa er að taka þeirri áhættu, sem felst í því að missa jarðtenginguna eða fótfestuna um stund, því að stíga inn í hið ótakmarkaða rými kærleikans.
Ef við þorum ávallt að taka þá áhættu, aftur og aftur, þá verður kærleikur Guðs grundvöllur tilveru okkar.
Jesús svaraði lærisveinunum og sagði að ef þeir hefðu trú eins og mustarðskorn gætu þeir gert hina ótrúlegustu hluti.
Mustarðskornið er ekki stórt, og vandmeðfarið í straumi lífsins.
Í því sem virðist svo lítið að þú getur varla séð það felast samt miklir möguleikar, sem veita næringu og skjól og gefa okkur styrk og kraft. Það er náðargjöf Guðs á göngunni áfram og til að takast á við þau ótal mörgu erfiðu og spennandi verkefni sem bíða okkar allra.
Leggjum allt okkar traust þar – Guð er kærleikur. Að trúa er að treyst á kærleika hans í okkar garð og annarra.
Látum þá trú og traust á hann móta líf okkar og dagfar okkar í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur á komandi tímum, þannig að börnin okkar og barnabörnin geti sagt um okkur og þessa tíma í framtíðinni, að við höfðum hugrekki til að horfast í augu við erfiðleikana og hvert annað, vit til að leita og finna lausn á þeim, leidd af náð Guðs og knúin áfram af birtunni og ylnum af vonarsól Guðs sem lýsir yfir sjóndeildarhring.
Guðmundur Karl Einarsson
25. janúar 2009 11:00